Friday, June 29, 2007

krakandi fréttir

Talaði við tengilið minn í Kraká í morgun og ég er víst að fara í viðtal 16.júlí. Þannig að ég eyddi um 4 tímum í morgun í að skoða flugfargjöld. Er ekki enn komin að niðurstöðu, en mér sýnist að það eigi eftir að kosta um 30000 fram og til baka bara af landinu, og svo á eftir að bætast við flug frá köben eða london. Þannig að ef einhver fær gífurlega löngun til þess að styrkja mig þá segi ég ekki nei. Kannski ég ætti að kveikja í íbúðinni og fara svo í Dv og biðja um fjárhagsaðstöð frá landinu. Ætli það virki...

Thursday, June 28, 2007

Nie rozumiem

Dzień dobry! Ég á í skrítnum samskiptum við skólann í Kraká þessa dagana. Aðalega, því ég fæ mjög skrítin email frá þeim til baka. Fékk vægt hjartaráfall í gær, þegar mér skyldist á emailinu sem ég fékk að mappan mín hafi aldrei komist til skila. En eftir að hafa hringt í dag, þá veit ég að hún komst á leiðarenda. Hjúkk. Skilst líka að ég þurfi að skrá mig á einhverja síðu, og svo gæti ég þurft að fara til Póllands um miðjan júlí. Skylst líka að það sé afskaplega mikilvægt að kunna pólsku í þessu námi, þar sem allir fræðikúrsar eru kenndir á pólsku. En ég er þrjósk. Hversu erfitt getur það verið að læra pólsku! isspiss, maður fer létt með það...
Er þegar byrjuð að grugga í því á netinu, mjög gaman. Getur hlustað og allt. Ekki frá því að ég hafi náð að bæta framburðinn í gær. Hef tekið eftir því að maður verður dimmraddaðri þegar maður talar pólsku. Eða kannski er ég bara ósjálfrátt að herma eftir pólsku konunni í prógramminu. Do widzenia.

Monday, June 25, 2007

um kort

Áður en ég fór í Eymundsson þá áttaði ég mig aldrei á því hvað orðið kort getur átt við margt. Af reynslu minni hef ég séð að það gera heldur ekki viðskiptavinirnir og margir sem spyrja:

"Hvar eruð þið með kort?"

Ég: "hvernig kort?"
stundum segja viðskiptavinirnir: "ferðakort"
og auðvitað getur það átt við tvennt: íslensk ferðakort eru á standinum við dyrnar og erlend ferðakort eru upp í erlendu deild á 5.hæð.

Ef að þau spyrja um gjafakort? þá getur það átt við um gjafakort Eymundsson sem er selt við kassann, miðbæjargjafakortið sem er selt í íslensku deildinni. Og svo tækifæriskort(sem margir kalla gjafakort) sem eru í ritfangadeildinni.
Því sjáið þið að það að fara inn í eymundsson og spyrja um kort, er mjög flókið mál. En þetta voru punktar dagsins, og þið sjáið því að ég hef svosum ekkert merkilegt að segja nema að ég var í vinnunni í dag. En get þó sagt eitt, ég er hugsanlega komin með verkefni, og það kápu fyrir nýja bók eftir drottningu spennusagnanna sjálfa...tammdammdammdamm. Ætla ekki að segja meira í bili...

Saturday, June 23, 2007

jónsmessunótt

Dagurinn var yndislegur. Fór með Elínu og Bjarna í grasagarðinn þar sem við lágum í grasinu og spiluðum yatsí. Hef ekki verið nógu dugleg að nýta mér þennan garð en það breytist hér með. Vissuð þið að hann er bara einn af um 1500 grasagörðum og trjásöfnum í heiminum og það vaxa um 4000 tegundir af gróðri. Já, ég er svo mikill lúði að ég gúglaði grasagarðinum áður en ég fór þangað.

Annars ætla ég bara að vera róleg í kvöld, þar sem ég er enn að jafna mig á viskíinu síðan í gær. Jeppe eldaði ljómandi góðan mat handa mér og vinum hans Lau og Katrinu sem voru í heimsókn. Svo bauð hann upp á mikið áfengi og svo fórum við í bæinn. Annars hef ég ekkert merkilegt að segja nema að ég laumast kannski út og velti mér upp úr dögginni á eftir. Skilst að það eigi að vera voðalega gott fyrir mann á Jónsmessunótt. Líka alveg óhætt því að tröll og aðrar vættir eru sofandi í alla nótt.

Friday, June 22, 2007

fanney illgjarna

hahaha, er ég rosa illgjörn ef að mér finnst kommentið á seinustu færslu ógeðslega fyndið!!!

Thursday, June 21, 2007

skipulagðar kengúrur

Hún Kristín vinkona mín úr grafíkinni átti afmæli áðan og því fórum við nokkur og borðuðum saman á Tapas. Ég ákvað aldrei þessu vant að vera sérlega ævintýragjörn og fékk mér m.a kengúrusteik og lambakjöt í lakkríssósu. Bæði bara nokkuð gott. Fórum svo á Kbar á eftir, þannig að þetta var bara mjög skemmtilegt kvöld. Annars er ég búin að vera sérlega einhverf í vinnunni undanfarið og hef verið að raða öllu upp á nýtt. Á það til að týna mér í þannig hlutum og alveg án þess að leiðast. Get samt ekki sagt að herbergið mitt sé svona skipulagt, en kommon, maður verður að gera vinnuna skemmtilegri! Þannig að ef einhver á leið í íslenskudeildina í Eymundsson Austurstræti, þá takið eftir útstillingunum á bókunum, sést klárlega að þar er manneskja með gráðu í smekklegheitum á ferð. Annars er ekkert merkilegt að segja, lífið er ágætt, veðrið er ágætt, er eitthvað hægt að vera að kvarta?

Sunday, June 17, 2007

herra Tyggjó

Í gær dunduðum við Aðalbjörg okkur við að mála vegg í herberginu hjá dætrum hennar. Hún sagði að ég mætti alveg ráða hvað ég gerði, þannig að á veggnum býr núna Herra Tyggjó, mjög svo bleikur pandabjörn. Á eftir að gera einn vegg í viðbót, ætla að hafa þar fljúgandi kolkrabba að týna blóm af himninum. Verður allt mjög súrt, en fallegt og glaðlegt. Fór svo í afmæli hjá Grétari um kvöldið. Laug í honum að ég hafi bara notað svartan lit og málað köngulær á vegginn hjá þessum tæplega eins árs gömlu stelpum. Hann sem þekkir verkin mín virkilega trúði mér og svipurinn á honum var óendanlega fyndinn. En ég átti inni hjá honum, veit ekki hvað hann hefur oft náð að ljúga að mér, enda er ég afskaplega trúgjörn. En það var bara mjög gaman í afmælinu og fórum við svo í bæinn á eftir. En bærinn er leiðinlegur þessa dagana, hef ekki skemmt mér almennilega í bænum allan mánuðinn. Ekki gott. En jæja, ætla að fara að undirbúa mig undir 17.júní hátíðarhöld...

Wednesday, June 13, 2007

exton

Nú er ég officially komin með vinnustofu í gamla Exton-húsinu. Tek sjálfa mig strax alvarlega, eiginlega bara eins og alvöru hönnuður núna sem vonandi fer að gera alvöru verkefni bráðum og fæ þá vonandi alvöru tekjur meðfram því. Annars lítur þessi vinnustofa mjög vel út, ef það er eitthvað sem ég er hrædd um, er að loftið verði þungt. En skilst að loftræstingin eigi að vera góð. Svo er þetta bara voða kósí og meira að segja tvö fótboltaspil í "stofunni". Gæti ekki verið betra.
Fór í heimsókn til Kristínar áðan. Þar var Heiða líka og nýji meðleigjandinn þeirra sem ég man ekki hvað heitir. En allavega, það var vel tekið á móti mér með fullt af sælgæti, kók, popp og video. Gæti ekki hafa verið betra.
En núna ætti ég kannski að fara að sofa, þarf að fara að mikilvægan fund í fyrramálið. Sagði þetta bara, því núna tek ég mig svo alvarlega. Reyndar er þetta bara enn einn betl-fundurinn, þar sem ég skríð inn í einhverja auglýsingastofuna og býð fram portfóliuna mína í von um grænna sumar...

Monday, June 11, 2007

vinnustofustaðafréttir

Ég er hugsanlega komin með vinnustofu. Finn nefnilega að ég hef ekki agann í að vinna heima. Sef alltof lengi, það er alltof mikil birta á skjánum hjá mér og ja, ég fer bara að gera eitthvað allt annað sem verður til þess að ég verð löt, leið og leiðinleg. Langar að vera í kringum aðra hönnuði og listamenn að vinna, sem ég geri ef ég fæ þessa vinnustofu. Er líka á spottprís, 10000 kr á mánuði. Hef eiginlega ekki efni á því, en verð að líta á það sem fjárfestingu. Er líka strax inspíruð og farin að teikna á fullu. Nýtt prójekt komið í gang. Er eiginlega bara með fullt af hugmyndum í augnablikinu.
Annars er ég vona að smá stríð sé byrjað í vinnunni. Ekkert vont, bara smá hrekkjastríð. Ein stelpan byrjaði nefnilega að setja miða á bakið á annari stelpu. Ég hjálpaði þeirri seinni að hefna sín og setti þjófavörn aftan byrjunarhrekkisvínið. Hefði verið óendanlega fyndið hefði það tekist, en því miður tók hún eftir því rétt áður en hún fór úr vinnunni, en þá var hún búin að ganga með verðmiða og þjófavörn á sér í um klukkutíma, múhahaha. Er að vona að nú verði þetta svona mission í vinnunni að fatta upp á næsta hrekk. Gerir vinnuna óneitanlega skemmtilegri...

Sunday, June 10, 2007

catcam

Vil líka benda fólki á nýjan link á Catcam, undir flokknum afþreying. Þar er hægt að skoða hvernig kötturinn Mr Lee eyðir deginum sínum. Þetta staðfestir það sem ég hef alltaf haldið, að það hljóti að vera frábært að vera köttur!

púl og svindl

Helgin er bara búin að vera nokkuð skemmtileg. Fór í gær með Elínu og Bjarna í pool. Aumingja Bjarni að þurfa að spila við okkur Elínu, við vorum báðar hræðilegar. Þó ég verði að segja að ég bætti mig þegar fór að líða á kvöldið. Fórum svo á kaffibarinn á eftir. Verð að segja, sem ekkireykingamanneskja að mér blöskrar dálítið meðferðin á reykingafólkinu á kaffibarnum. Það er svosum fínt að það sé ekki reykt inni, en mér finnst þá lágmarkið að fólki sé hleypt út í port til að reykja. En á kaffibarnum var komin einhver V.I.P stemming inn í portið (kenni um óþolandi dyraverðinum sem er tiltölulega nýbyrjaður), mjög erfitt að fá að komast út. Og ekki var hægt að fara út um aðaldyrnar nema að eiga á hættu að komast ekki inn aftur. Hitti engan sem ég þekkti þarna, sem er mjög óvenjulegt, þannig að spurning hvort að allt reykingaliðið sem var með mér í skóla sé farið að fara á staði sem eru reykingavænni, með betri svölum eða eitthvað þannig. Hefur allavega gleymst að láta mig vita...
Annars svaf ég alveg heillengi frameftir. Dagurinn var því nokkuð rólegur, en við Sölvi afrekuðum það að gera íbúðina glampandi hreina áður en Jeppe kemur heim frá Svíþjóð á morgun. Fórum svo bíó á myndina Hoax sem er alveg stórskemmtileg, mæli með henni. Jæja, ætla að fara að finna mér eitthvað að gera, á ekki eftir að sofna strax, ókosturinn við að sofa út.

Thursday, June 07, 2007

jammjamm

Í morgun þegar ég kíkti á lhí-póstinn minn sá ég að það voru tvö dreifibréf um verkefni. Þar sem ég var nýbúin að skoða heimabankann minn, þá var ég ekki lengi að svara báðum meilunum. Annað þeirra var auglýsing eftir grafískum hönnuðum til að gera myndir fyrir boli. Hljómaði skemmtilegt, og því fór ég í viðtal alla leið upp á Höfða. En nei, ég er ekki svo örvæntingafull eftir verkefnum að ég fari að "hanna" ljóta túrstaboli. Segi ég hanna innan gæsalappa, því maðurinn sem tók viðtal við mig var búinn að velja út hestamyndir sem hann hafði hugsað sér að yrðu raðað á bolina með tilheyrandi texta á nokkrum tungumálum. Afhverju í ósköpunum hann vildi hönnuð til verksins skil ég ekki, hann vantaði bara einhvern sem kynni á photoshop! Þetta voru því skiljanlega mikil vonbrigði. Hin auglýsingin var frá eldri konu sem byrjaði að spyrja mig í símanum hvort ég kynni á Pdf-forrit. Mjög krúttlegt :) En henni vantaði auglýsingu fyrir ferðaleikhús sem hún stjórnar. Það verkefni virðist þó nokkuð skemmtilegt, og er ég að fara að hitta hana á þriðjudaginn. Hef á tilfinningunni að ég nái að sannfæra hana um að leyfa mér að gera eitthvað rómantískt og flott, enda skilst mér að leiksýningin sé eftir þjóðsögum. Því gæti verið að ég sé loksins komin með eitthvað verkefni...

Wednesday, June 06, 2007

verkefnaleit

Afskaplega lítið á daga mína drifið undanfarið. Er byrjuð að vinna í Eymundsson alla virka daga frá 3-8, þess á milli er ég að leita mér að verkefnum. Er búin að fara í tvær stofur þessa vikuna, hvíta húsið og vatíkanið. Á báðum stöðum og þá sérstaklega vatíkaninu fékk ég mjög góð viðbrögð við verkunum mínum. Vona að ég eigi eftir að fá einhver verkefni, er farin að örvænta, og satt að segja að deyja úr leiðindum. Langar að fá eitthvað ögrandi og skemmtilegt viðfangsefni. Hef heldur ekki efni á neinu hangsi.
Annars fæ ég iðulega sömu svörin þegar ég fer og sýni möppuna mína. Flestum finnst verkin mín flott og langar að nota mig í einhver sniðug verkefni, en efast samt um að verkin mín nógu commercial. Eitthvað sem ég veit sjálf, en ég verð að spyrja: Er commercial í alvörunni að selja? Finnst einmitt að stór partur af almenningi kunni vel að meta ócommercial hönnun. Fékk allavega oft að heyra það á útskriftarsýningunni. Fólk er orðið leið á hönnun sem er öll eins. Spurning hvenær þeir sem framleiða auglýsingar fatti það.

Monday, June 04, 2007

til stóra bróðurs

Á trackernum mínum sé ég að það eru mjög margir sem slá inn leitarorðin "Hebbi psycho" og lenda þeir því á síðunni minni. Mér finnst það dáldið fyndið.

Sunday, June 03, 2007

útskrifuð

Í gær fékk ég svona blað sem segir að ég sé með BA gráðu í grafískri hönnun.
web page visitor counters
Dell Coupons
eXTReMe Tracker