Sunday, August 26, 2007

skipt um skoðun

Facebook er reyndar bara dálítið skemmtilegt. Stundum er hópþrýstingur af hinu góða. Tók svona próf þar í dag, þar sem ég fann út hvaða heimavist ég myndi tilheyra ef ég væri í Hogwarts, skóla galdra og seiða. Samkvæmt prófinu er ég í Ravenclaw. Nokkuð kúl. En samkvæmt því þá metur það hús "intelligence, knowledge and wit". Gæti verið verra. Hef samt tekið önnur Hogwarts próf áður. Í eitt skiptið var ég í Gryffindor, eins og Harry Potter sjálfur. En í hinu prófinu þá lenti ég í Slytherin... Held að metnaðurinn hafi orðið mér að falli í það skiptið.

Annars hrærist ég mikið í Harry Potter heiminum þessa dagana. Las 7.bókina aftur. Og ég var alveg jafn spennt og í fyrra skiptið. Svo horfði ég á allar 4 myndirnar á nokkrum dögum. Hef ekki orðið mér úti um þá 5.ennþá. Sá hana bara í bíó. Svo er ég aftur byrjuð á bók nr 1 núna.

En þetta þýðir ekki að ég sé að slóra með verkefnin. Eyddi stórum hluta helgarinnar upp á vinnustofu. Hinum hlutanum eyddi ég með vinum og vandamönnum. Enda svo stutt í að ég fari, verð að nota tímann. Hugsa að ferðaplanið mitt verði: flýg til Berlín 20.sept og fari svo með lest til Kraká 23. Hljómar spennó!

Thursday, August 23, 2007

Facebook og Abbababb

Mér finnst eins og heimurinn sé að neyða mig til að vera með Facebook. Svolítið erfitt, þar sem ég er mjög aktívur mæspeisari og finnst það alveg nóg. Alveg óþarfi að vera með Facebook líka. Fékk mér upphaflega Facebook, því að ég fékk boð um það frá gamalli vinkonu úr Álandseyjum, og var ég forvitin um þetta. En svo fara allt í einu allir vinir mínir, sem eru reyndar líka mæspeisvinir mínir, að biðja mig um að vera Facebook vinur sinn. Já lífið er erfitt.

Annars er ég bara að drukkna úr verkefnum í augnablikinu. Er að sjálfsögðu að vinna í skólatörninni í Eymundsson, svo er ég að klára bókakápuna góðu, á víst loksins að fá allar upplýsingar á morgun. Svo er það cd-coverið fyrir Nix Noltes. Svo er ég komin með enn annað verkefni sem verður svolítið strembið. Það er að myndskreyta barnabók byggða á Abbababb eftir Dr Gunna. Dáldið stórt verkefni. En það er bara mánuður í skil fyrir það, og ég á að teikna um 20 myndir. Bara næstum ein mynd á dag. Svo segir fólk að það sé auðvelt að vera listamaður,isspiss...

Monday, August 20, 2007

daglegt amstur

Ég er komin með rosalega spennandi verkefni. Er að byrja að gera plötuumslag fyrir hljómsveitina Nix Noltes. Gæti ekki verið meira spennt. Er komin á fullu í research. Svo er ég kannski að fara að fá annað verkefni, en það er ekki alveg komið á hreint. Kemur í ljós. Virðist sem að ég eigi eftir að hafa nóg að gera þar til ég fer út. Vona bara að verkefnin haldi áfram að koma á meðan ég er úti. Annars gerði ég heiðarlega tilraun til að hringja í skólann úti í dag, enda tengiliður minn kominn úr sumarfríi. Svakalega bjartsýn. Endaði með þvi að vera ekki komin með neinar nýjar upplýsingar, nema að ég á að vera í ár í tungumálanámi, en get kannski reynt að semja um annað við deildarstjórann, en hann er í sumarfríi til byrjun sept. Frábært. En fór þó í Lín, og ég fæ lánað fyrir tungumálanámi í ár, þannig að ég er jafnvel að spá í að fara bara út og svo finna út úr þessu þá. En allavega, hef eiginlega ekkert að segja, ætla að fara að sofa undir fögrum tónum nix noltes.

Saturday, August 18, 2007

Hvert fór ég?

Fór í gær í ljómandi gott partý til Ingunnar, sem varð þess valdandi að ég vaknaði þunn upp úr 11. En maður lét sig hafa það, menningarinnar vegna, og dreif mig því út strax upp úr hádegi. Þetta gerðum við Ingunn í dag:

Fórum að skoða Magma/Kvika sýninguna á Kjarvalsstöðum. Höfðum hvorugar séð hana, sem er eiginlega bara skammarlegt. En fín sýning, margt flott og margt ekki svo flott.

Fórum eftir það á flóamarkað. Keypti tvö pör af eyrnarlokkum á 500 kall saman. Góð kaup þar.

Fórum og borðuðum mjög svo menningarlegar pizzusneiðar.

Fórum í Bókasafnið og létum taka polaroidmynd af okkur í búningum frá leikfélagi rvíkur. Mjög skemmtilegt. Eins og að gramsa á góðu háalofti með fullt af ókunnugu fólki.

Fórum og fengum lánaða tóma bók-bookspace. Þar sem maður á að skrifa, teikna eða líma í tóma bók og skila henni svo aftur þar sem einhver annar heldur svo áfram. Ég er byrjuð á projecti innan þessa projects. Fékk eina svona bók. Ætla að teikna, skrifa á eina opnu á dag í viku og læt svo aðra manneskju fá bókina, og hún gerir það sama. Skilum svo fullunninni bók eftir 3 mánuði. Vona að þetta heppnast. Ég er meira að segja búin að númera allar blaðsíðurnar og búa til efnisyfirlit. Svona Keðju-Annáll.

Fórum eftir þetta í Gallerí Sellerí, þar sem listaháskólanemar voru að selja og sýna ýmsar vörur. Meðal annars blóðbergsdrykk með bláberjabragði. Dáldið góður.

Fórum svo í bókaskipið Logos 2. Þar skoðuðum við bækur og forðuðumst að vera frelsaðar. Keyptum þó ekkert.

Fórum svo heim til Ingunnar og slöppuðum af í 2 tíma.

Fórum svo heim til bróðurs Ingunnar og slökuðum þar á, drukkum pínku bjór og dáðumst að littlu frændsystkinum hennar.

Fórum svo að horfa á Megas og Mannakorn.

Fórum svo og horfðum á FLOTTUSTU FLUGELDASÝNINGU Í HEIMI!!! Töfrum líkast.

Fórum svo heim, hún til sín og ég til mín. Mjög góður dagur. Sáuð þið að ég skrifaði fórum í öllum setningunum. Fer nú að sofa ;)

Wednesday, August 15, 2007

leggjum skip

Ég var að koma úr vinnunni, kl 10. Átti upphaflega að vera bara til 8 en ég bauðst til þess að vera til 10. Bæði vantar mig pening, en þó er aðal ástæðan sú að ég hef semí gaman að þessu skiptibókafári. Fáum svo mikið af nýjum bókum sem þarf einhvern veginn að koma fyrir á allt of littlum borðum. Og það er það sem mér finnst svo gaman, að skipuleggja. Er svona laumuskipuleggingarfrík, þó það sjáist nú ekki í herberginu mínu. Það brýst bara út hjá mér í vinnunni. Var líka svona þegar ég vann á Hróa Hetti og í Bónusvideo. Tók líka einhvern tíman svona próf, um hvað væri minn leyndi hæfileiki. Þá kom það einmitt fram að ég hefði sérstakan hæfileika við að sjá fyrir mér rými og skipuleggja það, og að setja saman hluti(t.d úr ikea). En grafísk hönnun snýst reyndar líka að miklu leiti um skipulagningu, þannig að ég er ekki alveg að kasta þessum hæfileika mínum á glæ. Er heldur ekki frá því að ég eigi eftir að fá smá vöðva eftir þetta allt saman. Er smá illt í höndunum núna, búin að vera að lyfta svo mikið af þungum bókum. Fékk svona hugmynd að líkamsræktarbók um daginn, sem væri geðveikt þykk og þung og hægt að nota sem lóð í leiðinni. Finnst það dáldið sniðugt.

Tuesday, August 14, 2007

skólarnir byrja

Skrítinn hlutur kom fyrir mig í vinnunni, ég var hálftíma of lengi þar án þess að fatta það. En það var ekkert sérlega gaman, bara fáránlega mikið að gera. Enda skólavertíðin og svona. Finn samt hrikalega til með framhaldsskólanemendunum sem eru að borga um 30-40 þúsund kall fyrir bækur. Aldrei lenti ég í þessu. Enda lagði ég mikinn metnað í að leita uppi notaðar bækur, þ.e ef ég keypti bókina á annað borð!

p.s Skandall dagsins held ég að sé þegar ein í vinnunni komst að því að það er stafsetningarvilla á kápunni fyrir réttritunarorðabókina. Það er víst ekki hægt að treysta á neitt í þessu lífi...

Sunday, August 12, 2007

hönnunarbók ágústmánaðar

Gleymdi alltaf að segja frá henni. Að þessu sinni var það doðrantur fullur af tískuteikningum úr öllum áttum:"big book o fashion illustration". Hrikalega flott bók og ég er rosa hamingjusöm með hana. Nú hristir Hebbi örugglega hausinn og spyr sjálfan sig hvort það sé gáfulegt að ég bæti fleiri bókum í safnið, þar sem ég er að fara út. EN ég á hvort eð er eftir að láta senda mér bækurnar, þannig að ein í viðbót skiptir víst ekki máli. Annars er ég hamingjusöm hvað það gengur vel að uppfylla þetta áramótaheit mitt. Líka með að heimsækja þrjú lönd á árinu. Er þegar búin að fara til Kraká og Berlín 2svar. Og tæknilega séð til london, þar sem ég var í stanstead í rúmlega 6 tíma. En mér finnst að ég verði að fara til eitt útlands í viðbót, kannski þegar ég er komin út. Ætla nú alltaf að heimsækja Ingunni í Amsterdam. En eins og þið sjáið á þessu þá á ég augljóslega auðveldara með að standa við áramótaheit sem felast í því að eyða peningum. Því ég hef ekkert verið neitt sérlega dugleg að fara út með ruslið. En ég vaska rosa oft upp...

Thursday, August 09, 2007

the dangerous lifes of the eymundsenworkers

Það kom gömul kona í dag og barði mig með staf fyrir að selja henni gömul dönsk blöð. Ég ætti í alvörunni að fá áhættubónus í vinnunni.

Wednesday, August 08, 2007

Dularfulla bréfið

Ég fékk dularfullt bréf um daginn. Eitt þessara sem maður þarf að kvitta fyrir og allt. Ég varð afskaplega glöð þegar ég uppgötvaði að það væri frá skólanum í Kraká en ekki entist sú gleði lengi. ÞEtta voru 6 bls sem virtust mikilvægar, en allar á pólsku. Því miður er það hægara sagt en gert að fá svona skjöl þýdd, aðalega því það kostar morðfjár. En ég var svo heppin að ein í vinnunni minni á pólskumælandi vin sem var svo vænn að fara yfir bréfið fyrir mig. Í Bréfinu stendur m.a að ég eigi pantaðan tíma í læknisskoðun´í september. ÉG á sem sé eftir að hitta bekkjarfélaga mína í fyrsta skiptið á biðstofu hjá lækni. Þarf samt líka að fá vottorð frá íslenskum lækni að ég sé heil á heilsu og geði. VOnum að ég komist í gegnum það. Svo eru víst líka einhverjar leyfar frá kommúnismanum að ég verði að fara á skyndihjálparnámskeið, annars fái ég ekki að hefja námið. Ef ég hefði verið 15 árum fyrr hefði ég víst líka lært að skjóta af byssu. Mjög nauðsynlegt fyrir grafíska hönnuði eins og þið getið ímyndað ykkur. Eiginlega bara hættulegt, allt of mikið af óþolandi kúnnum í þeim bransa.

Monday, August 06, 2007

Innipúki



Helgin fór í vinnu og innipúkaskap. Það var gaman, sérstaklega í gær. Mikið dansað og drukkið. Líst líka ansi vel á þennan stað, Organ. Ljómandi góður tónleikastaður, passlega stór. Sé fyrir mér mörg góð kvöld þar í framtíðinni. Á myndinni sjást ég og Kristín fyrir utan Organ. Sveittar og sælar eftir allan dansinn. Myndin var á reykjaviklooks. Er maður þá ekki officially kúl? Eða ekki...

Annars fékk ég góða hugmynd. Veit ekki hvort hún sé ný, en hverjum sem er er velkomið að stela henni og verða milli. Það ætti að gera svona póstkortasjálfssala, sem getur verið staðsettur t.d fyrir utan Eymundsson. Þar getur maður valið sér póstkort, og svo er líka inní þessu póstkassi, þannig að vélin sér um að redda manni frímerki og allt. Vildi að það væri svona sjálfssali, ekkert er leiðinlegra í heiminum en að afgreiða póstkort.

Wednesday, August 01, 2007

Tekjublaðið

Já, nú er enn eitt fárið skollið á í bókabúðinni, og í þetta skiptið er það Tekjublað Frjálsrar verslunar sem er komið út. Aldei hef ég tekið eftir þessu blaði, og því verð ég að viðurkenna að mér brá í brún hversu mikið er haft fyrir þessu. Ástæðan er sú að núna þyrpist jakkafataliðið og slúðurkerlingarnar inn í búðina til að hnýsast um hvaða 2500 íslendingar eru með hæstu tekjurnar. Ég verð að viðurkenna að ég hef afskaplega littla skoðun á því hvort að þessar upplýsingar ættu að vera birtar eða ekki, en þessi hnýsni finnst mér hreint út sagt ógeðsleg. Líklegast finnst mér að flestir séu að lesa þetta til að öfundast eða það sem er verra, finna út hvar þeir séu á listanum(gruna jakkafatakallana um það). En það sem mér finnst verst, er að laun einhverra manna skipti fólk svona rosalega miklu máli. Að peningar skipti fólk svona rosalega miklu máli. Ég meina, hvað í ósköpunum ætti ég að gera við þessar upplýsingar! Ætti ég að nota þetta sem stefnu: ég ætla að eignast svona mikinn pening einhvern tímann. Eða er þetta til að skapa umræðu næstu daga: Hvað ætli þeir geri svo fyrir allan peninginn...(ég held að þeir kaupi jeppa í fleirtölu by the way). Nei, ég verð að viðurkenna að ég skil þetta ekki alveg. Asnalega kapítalíska Ísland!

róni

Eftir Frönsku dagana var ég ákveðin í því að drekka ekki næsta mánuðinn. Ég hélt upp á þessa ákvörðun með því að kaupa mér miða á Innipúkann um næstu helgi og kíkja á Næsta Bar með Ingunni í gærkvöldi. Gott að vita hvað maður er alltaf staðfastur. Annars var rosalega skemmtilegt að hitta Ingunni, enda höfum við ekki hist í næstum tvo mánuði og báðar frá rosalega miklu að segja. Enda ég nýkomin úr ferðalagi, og hún búin að vera að vinna í Portúgal í sumar. Svo er hún að fara að flytja til Amsterdam og ég Kraká, þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur spenninginn hjá okkur báðum. Annars sit ég núna á vinnustofunni minni að reyna að vinna í þessari blessuðu bókakápu. Er samt dáldið föst, þar sem ég veit ekki alveg hvenær deadline er hjá mér, auk þess sem mig vantar baksíðutextann og lógó og strikamerki og allt þetta. Svo þarf víst smettið á þeirri gömlu líka að vera aftan á kápunni. Gallinn við að gera kápu fyrir spennusagnadrottningu.
web page visitor counters
Dell Coupons
eXTReMe Tracker