Tuesday, May 29, 2007

Beðið eftir framtíðinni

Jæja, nú er ég búin að senda umsókn um mastersnám í Kraká fyrir næsta vetur. Nú er bara að bíða eftir svari. Hef á tilfinningunni að sú bið muni virðast ískyggilega löng.

Sunday, May 27, 2007

útskriftarverkefni

Er búin að vera að reyna að setja þetta á fanneysizemore.com, en ekki að takast í augnablikinu. EN allavega, hérna eru útskriftarplakötin mín:







Thursday, May 24, 2007

hönnunarbók maímánaðar...aftur

Ég veit að planið var ein hönnunarbók á mánuði, en þessi bók var of fín og of góð til að sleppa. Líka komið nýtt launatímabil/skrif-tímabil í vinnunni, þannig að tæknilega séð getur þetta verið júníbókin ;) Ég er alltof góð í að réttlæta hluti fyrir mér...

Monday, May 21, 2007

aðgerðarleysi

Ég er ekkert sérlega bloggfær þessa dagana, enda hafa seinustu dagar verið frekar óspennandi með nokkrum undantekningum þó. Fór aðeins út á föstudags og laugardagskvöldið. Fór líka á sýninguna mína með Aðalbjörgu og svo hitti ég gríslingana hennar tvo sem hafa þroskast ískyggilega miðað við þegar ég sá þá seinast. Núna eru þær farnar að standa og á hreyfingu út um allt hús. Mikið fjör hjá þeim. Svo i gær þurfti ég að hanga upp í kartöflugeymslu allan daginn. Það var frekar langdregið. Öll nafnspjöldin mín eru búin, 300 stykki, en ekki bólar á neinum verkefnum. Hmm. Sá það í gær, að það var pínku galli við að hafa svona sæta mynd á nafnspjaldinu mínu, því að krakkarnir rifust um að taka nafnspjald hjá mér. Frábært. Sé fyrir mér að ég fái fullt af verkefnum frá þeim. Fór svo upp í skóla til að hreinsa vinnusvæðið mitt, og því er ég núna með tvo svarta ruslapoka af drasli sem ég hef ekki hugmynd um hvar ég á að koma fyrir. Ætli það verði ekki verkefni vikunnar ásamt því að sækja um skóla og þess háttar rugl. Kannski ég prófi líka Sci Fi dópið mitt sem ég downloadaði og hef ekki þorað að prófa. Svona ef það skyldi í alvörunni virka...

Tuesday, May 15, 2007

yfirferð og gælugeitungar

Var í yfirferð á lokaverkinu áðan, held að mér hafi gengið vel, veit það samt ekki fyrir víst. Þessir prófdómarar eru ekkert að gefa of mikið upp að svo stöddu. Nú er maður því komin í "sumarfrí", aðeins að bíða eftir einkunnum og útskriftarathöfinni sjálfri. Þetta verður reyndar í fyrsta skiptið sem ég útskrifast með athöfn. Þegar ég kláraði 10.bekkinn fyrir austan þá fluttum við suður áður en útskriftin sjálf var. Svo kláraði ég náttúrulega aldrei menntaskólann officially, þrátt fyrir 160 einingar og rúmlega fjögur ár af námi. Þannig að þetta verður stór stund fyrir mig. Annars má benda fólki á að sýningin stendur yfir til 27. maí, opið alla daga frá 12-6, og mæli ég með því að allir fari og sjái.

Annars er það bara að bíða eftir að sumarið komi. Ég er þó ekki frá því að það sé farið að láta á sér kræla og er vorboðinn sjálfur geitungurinn farinn á stjá. Kötturinn hennar Elínar varð meira að segja fyrir geitungaárás(reyndar bara af einum geitungi, en þetta hljómar miklu betur svona).
En talandi um geitunga, þá fékk ég mjög skemmtilegar leiðbeiningar um daginn, um hvernig hægt sé að gera sér "gælugeitung".

-Fyrst er að veiða eitt stykki geitung, og best er að gera það í svona sodastreamflösku.

-Svo festiru sodastreamsflöskuna á sodastreamstækið, og gasar smá. Þá sofnar geitungurinn og hægt er að athafna sig hættulaust.

-Næst þarftu að ýta út broddinum, og brjóta af endanum.

-Svo binduru hár utan um búkin á geitungnum, rétt fyrir ofan vængina. Passar að binda ekki of fast, því þá fer hann í sundur.

-Að sjálfsögðu er geitungurinn nokkuð illur þegar hann vaknar. En þá ertu með hann í "bandi" og þú meiðir þig ekki neitt þegar hann stingu þig.

-Góða skemmtun á komandi sumri :)

Monday, May 14, 2007

hönnunarbók maímánaðar

Keypti mér að þessu sinni bókina "Emily´s Good Nightmares". Fyrir þá sem ekki vita þá er Emily Strange hálfgert krútt-gothic vörumerki, sem birtist bæði í hlutum og svo nokkrum bókum. Bækurnar eru ótrúlega flottar og grafískar. Svo er alltaf ótrúlega flott prentið í þeim. Fyrstu bækurnar eru nánast bara svartar, hvítar og rauðar, en sú bók sem ég keypti er aðeins litríkari og minna vektor-leg en hinar. Þó þær séu reyndar allar mjög flottar.



Svo ákvað ég reyndar að skella á mig einni ljóðabók líka. Mæli með henni.

Sunday, May 13, 2007

...

Er fúl yfir kosningaúrslitunum. Afhverju fólk kýs alltaf yfir sig sömu vitleysuna aftur og aftur skil ég ekki. Kvíði eiginlega bara fyrir næstu fjórum árum fullum af vitleysisskap.
Annars var dagurinn í gær skemmtilegur. Mæli eindregið með því að opna sýningar þegar fólk er efins um sjálfan sig. Ágætis egóbúst. Fékk bara mjög góð viðbrögð við verkunum mínum.
Skrítið samt að þetta sé búið, eða næstum. Reyndar er kritík á þriðjudaginn. Kvíði pínku fyrir því, en held samt að mér eigi eftir að ganga vel. Kemur í ljós.

Annars er ég ekki alveg í blogg-andanum núna. Skil ekki afhverju ég er að skrifa. Ætli mér leiðist ekki bara, þar sem allt er eiginlega búið.

Friday, May 11, 2007

THE BIG DAY!

Allir velkomnir á útskriftarsýningu LHÍ, laugardaginn 12.maí, kl 2 í gömlu kartöflugeymslunum í Árbæ.

Wednesday, May 09, 2007

heimska reykjavík

Þegar ég labbaði heim úr skólanum í seinustu viku, í hálfgerðu þunglyndi yfir að þurfa að eyða sumrinu á Íslandi, þá glaðnaði aðeins yfir mér. Afhverju, jú, ég labbaði niður laugaveginn, og á leið minni voru 4 rúmenskir harmonikkuspilarar með jöfnu millibili(ekki bara einn eins og vanalega). Þar sem mér finnst sígaunatónlist mikill gleðigjafi, þá var ég býsna hamingjusöm yfir þessum stórborgarbrag. Kannski Reykjavík væri ekki eins glötuð og mér finnst hún stundum. Sá fyrir mér heilt sumar, fullt af harmonikkutónlist og mannlífi. Þar sem mér finnst óþægilegt að labba um með ipod eða tónlist í eyrunum(finnst ég vera í tónlistarmyndbandi og ekki í takti við raunveruleikann), þá var ég ánægð að fá tónlist í bland við önnur umhverfishljóð. En nei, Reykjavík er víst eins glötuð og ég hélt. Er ekki búið að fljúga í burtu með tónlistarglöðu rúmenana mína, allt út af sígaunafordómum og heimskum kaupmönnum.

Tuesday, May 08, 2007

allt að koma

Fór áðan með plakötin mín í prent og fæ þau nýbökuð og fín á morgun. Mér finnst samt hrikalegt að borga 23000 kall í prent, en það er samt ódýrt, því að þetta eru A0 plaköt og þau verða fómuð. Held ég nái jafnvel að vera með ódýrasta lokaverkefnið í hönnunardeild, þ.e ef að Helgi steli ekki titlinum af mér. Kemur í ljós.
Annars vil ég ekki uppljóstra of miklu um verkin mín, enda verður fólk bara að mæta á sýninguna, en get þó sagt að þetta er endurhönnun á fjórum kvikmyndaplakötum, og eru kvikmyndirnar sem ég valdi: The Matrix, Gattaca, The Sixth Sense og Eternal Sunshine of the spotless mind. Er einmitt búin að vera að vandræðast með þetta seinasta, og búin að hanna það fjórum sinnum! Held ég sé ekki dómbær á það lengur, en held það sé orðið fínt. En á samt ýmislegt eftir, þannig að ég ætla að halda áfram.

Monday, May 07, 2007

hvað á að kjósa?

Ég viðurkenni að ég hef ekki mikið nennt að fylgjast með kosningarövlinu undanfarið, þó það sé erfitt að láta það framhjá sér fara. Auglýsingar með fáránlegum loforðum birtast út um allt og er framsóknarflokkurinn þar háværastur. Greinilegt að þeir séu að reyna að höfða til yngri aldurshópa, kannski fatta þeir að gamlingjarnir eru löngu búnir að sjá í gegnum þá. Annars tók ég ansi skemmtilegt próf áðan á http://xhvad.bifrost.is þar er maður látinn svara spurningum um helstu kosningamálefni og svo færðu niðurstöðu um hvaða flokkur er mest sammála þér. Þetta er ekki scam frá sjálfstæðisflokknum :P, tékkaði á því, heldur algjörlega hlutlaust próf. Samkvæmt prófinu ætti ég að kjósa Vinstri-Græna, kemur mér nú ekkert sérlega á óvart. Hugsa að ég fari eftir því, eða skili bara auðu...

Sunday, May 06, 2007

Lóinn er kominn

Fór á Spiderman í bíó í gær. Það er ekkert betra en amerísk afþreyingarmynd þegar maður er þunglyndur eftir að hafa arkað um alla smáralind og kringlu í leit að rétta útskriftardressinu, en finna ekki neitt. Fórum í Laugarásbíó, það er búið að breyta stóra salnum. Núna er hann bara venjulegur og með þægilegri sætum. En ég var samt ekki alveg sátt við hann svona, því mér fannst gamli salurinn alltaf svo skemmtilegur. En þessi er samt allt í lagi, þarf bara að venjast honum. Finnst ég stundum eins og gömul rövlandi kelling, sem þolir ekki allar þessar breytingar.

Annars fór ég í 60s húsmóðursleik áðan. Þreif alla íbúðina, setti á mig svuntuna og bakaði skúffuköku og hlustaði á Gullbylgjuna á meðan. Ekkert hálfkák hérna. Ég kenni 60s veggfóðrinu í eldhúsinu um.

Wednesday, May 02, 2007

nafnspjaldið mitt

web page visitor counters
Dell Coupons
eXTReMe Tracker