Wednesday, January 31, 2007

Bók Mánaðarins


Þar sem eitt af áramótaheitum mínum var að kaupa eina hönnunartengda bók á mánuði, þá var ekki seinna vænna en að fara í innkaupaleiðangur í dag. Fyrir valinu varð bókin "Fancy Alphabets" og er bókin stútfull af allskins úberrómantísku letri. Bókin er mikill innblástur og ekki er verra að uppgötva þegar maður kemur heim með bókina, að með henni fylgir geisladiskur með öllum myndunum úr bókinni og er maður hvattur til að nota þær að vild. EKki frá því að ég sé strax komin með nokkrar hugmyndir fyrir lokaverkefnið.

Annars fór ég áðan með nokkur verk inn á auglýsingastofuna Pipar, en þangað átti maður að skila verkum fyrir FÍT verðlaunin. Stofan er stór og hvít og allir sjá mann þegar maður labbar í gegnum herbergið. Það virðist ekki gaman í vinnunni hjá fólkinu. Þegar ég ætlaði að labba út, þá æddi ég að Kramervísu inn í fundarherbergi sem var staðsett við hliðina á útganginum. Vúps.

Tuesday, January 30, 2007

tvær sögur

Heyrði tvær ólíkar en skemmtilegar sögur í dag:

Önnur er um íslenskan mann sem heitir því skemmtilega nafni: Hörður Mörður Harðarson. Á þessi maður að hafa aðeins heitið Hörður Harðarson, en hafi verið svo óheppin að hafa tapað í veðmáli og hafi þurft að bæta Merði inn í nafnið.

Hin sagan er ekki eins smekkleg. Samkvæmt bekkjarsystrum mínum þá er það mjög algengt á meðal súpermódela að gleypa bandorm, svo að hann éti allt sem þær éti og þar af leiðandi haldist þær grannar. Fylgdi sögunni hvernig maður losnar við bandorm, en á maður að fylla baðkar af 37 gráðu heitu vatni og stinga svo rassinum ofan í, en bandormum á að finnast sá hiti ákjósanlegur og rennur hann bara út. Já, það er ekki tekið með sældinni að vera fallegur.

Saturday, January 27, 2007

mannskoðun

Ég tel mig mikinn mannskoðara, þ.e hef afskaplega gaman af því að horfa á fólk(þá er ég ekki að tala um í gluggagæjarakrípíleik), heldr bara að fylgjast með fólki og hvernig það gerir hlutina. Internetið er einstaklega gott tæki til mannskoðunar og tel ég að barnaland.is sé einstaklega góð síða til þess. Ekki það að ég skoði heimasíðurnar sjálfar neitt rosalega mikið, enda skoða ég bara síðuna hjá Hrefnu og Telmu.
En nei, þetta samfélag sem virðist hafa yfirtekið barnaland vekur áhuga minn. Alltaf eru að koma fréttir frá Barnalandi: kosninginn um fallegasta barnið, 17 umræðuvefir um break-up Magna og Eyrúnar(5000 manns tjáði skoðun sína), en svo er það líka nöfnin sem þessi blessuðu börn þurfa að bera sem er ekki síður áhugavert.Mjög auðvelt er að sjá þau tískunöfn sem eru í gangi hverju sinni, enda það fólk sem aðhyllist tískunöfn stór hópur barnalandsnotenda.
Svo eru það anskotans bumbubúarnir. Ég á mjöööög erfitt með að skilja fólk sem skýrir síðu barnsins síns bumbu-eitthvað. Held það sé lágmarkið að reyna að vera frumlegur. Á barnalandi eru 32 síður sem heita:Bumbubúi og eitthvað nafn,
23 sem heita: Bumbukríli og eitthvað nafn
svo má ekki gleyma öllum Bumbukrúttunum, Bumbulínunum, Bumbusunum, Bumbusnúllum og öllu því sem fólki dettur í hug að bæta fyrir aftan orðið "bumba".

Nýlega uppgötvaði ég aðra síðu sem er stórskemmtileg. Fasteignasíður mbl.is. EKki er ég nú í húsnæðisleit en á þessum stórskemmtilegum tímum digital camerunnar, þá er mjög auðvelt að skella inn myndum af heimlinum. Og hvað finnst mér svona skemmtilegt, jú hvað sumt fólk á ógeðslega ljót og ósmekkleg heimili! Ég er ekki að reyna að vera leiðinleg og illgjörn, en sumt fólk hefur bara alveg stórmerkilegan smekk og tekur afskaplega furðulegar ákvarðanir þegar kemur að húsgagna eða litavali. Jæja, segi þetta nóg í bili og góða skemmtun ;)

Wednesday, January 24, 2007

Pektólín

Maður myndi halda að fólk myndi ekki drekka of mikið af hóstamixtúrunni sinni tvo daga í röð. En nei, það á ekki við í mínu tilfelli. Held ég þurfi að læra að telja og taka minni sopa.

Tuesday, January 23, 2007

hóstamixtúruoverdoes

Var dugleg í gær, í fyrsta skiptið í langan tíma. Fór með Ingunni upp í þjóðarbókhlöðu, þar sem ég loksins drullaðist til að skrifa eitthvað af viti fyrir þessa BA ritgerð. Var búin að gleyma hvernig svona skólabókasöfn eru. Upp í LHÍ vinnur maður sjaldan á bókasafninu, svo að ég hef ekki setið á bókasafni að læra síðan í FB. Var búin að gleyma hvað loftið er þurrt og andrúmsloftið þvingandi, þannig að maður þorir varla að anda og getur ekki gert neitt nema að læra. En það virkar, maður kemur einhverju í gegn. Man þegar ég var í FB að eins og ég eyddi alveg ágætis tíma á bókasafninu þar, þá gerði ég það sjaldnast fyrir próf. Allir svo stressaðir að orkan varð eitthvað svo óþægileg. Fór frekar eitthvað annað.

Allavega, annars er ég búin að vera hálfslöpp í dag og með leiðindarhósta. Las samt ekki leiðbeiningarnar sem fylgdu með hóstamixtúrunni, sem er bara svona venjuleg hóstamixtúra, og ég fékk mér alltof mikið af henni. Svo góð á bragðið. En svimar smá og er þurr í munninum, sem eru víst aukaverkanir ef maður tekur of mikið. Já, dáldið hallærislegt, ég veit. Annars held ég fari bara að sofa. Horfði á tvær góðar myndir í dag þó, önnur var Thank you for smoking, sem já, var bara geðveik. Hina hef ég séð hundrað sinnum og er alltaf jafn skemmtileg, High Fidelity. John Cusack líka eitthvað svo hæfilega depressed og aðlaðandi í henni ;)

Saturday, January 20, 2007

Hamingja óskast!

Ég er þannig manneskja að annað hvort er lífið ótrúlega yndislegt og mér finnst allt fallegt og skemmtilegt, grámyglan, skólinn, helgin, virki dagurinn, fólkið í kringum mig. Hins vegar finnst mér allt ömurlegt, er eyrðarlaus, óhamingjusöm og hundleiðist. Þessa dagana líður mér þannig. Í þessu tilfelli þurfti bara eina setningu til að koma mér úr hæstu hæðum niðrí þunglyndi og leiðindi. Það er erfitt líf að vera psycho.

óviðeigandi

Skrítið orð-óviðeigandi. Maður notar það oftast um gjörðir fólks: "þessi sagði eitthvað óviðeigandi". En getur maður verið bara óviðeigandi? Að vera óviðeigandi persóna. Ef einhver vill hætta með maka sínum: "fyrirgefðu, en þú ert mér óviðeigandi". Óviðeigandi er nú sett saman úr orðunum að eiga við. Fólk talar um að eiga ekki saman, getur fólk þá ekki verið hvort öðru óviðeigandi? Stundum líður mér eins og ég sé óviðeigandi. Ekki góð tilfinning.

Monday, January 15, 2007

ósýnilega ritgerðin

Úff, vildi að ég hefði gert BA ritgerð um ímyndunaraflið. Þá hefði ég getað skilað blaðinu auðu og sagt að stafirnir væru ósýnilegir. Þá hefði ritgerðin alltaf orðið góð, því lesandinn hefði bara þurft að nota ímyndunarafl sitt til að gera ritgerð. Er ekki hægt að rökstyðja þetta?

Saturday, January 13, 2007

Ný þvottavél!

Jeiii, loksins erum við komin með nýja þvottavél. Sú gamla sem við Hebbi keyptum af þvottavélanördinu fyrir 3 árum gafst upp í desember, og hef ég þurft að þvo hjá mömmu síðan. En við Jeppe hringdum í karlinn í dag, og við fengum fína þvottavél, plús að hann tók þá gömlu upp í verðið. Ekki amalegt það. Annars er ég bara að hafa rólega helgi, þarf víst að vinna í þessari BA ritgerð. Þið getið horft á þetta virkilega vonda myndband frá Herbalife. Mjöööög fyndið ;)

Thursday, January 11, 2007

Fanný er týnd

Hversu mikil áhrif hefur nafnið okkar á okkur? Einu sinni hélt ég að börn sem væru skírð skrítnum og sjaldgæfum nöfnum væru alltaf lögð í einelti í skóla og þess vegna yrðu þeir listamenn eða eitthvað tengt því. Núna held ég að það sé frekar uppeldið. Það er engin tilviljun að börnin í Austurbæjarskóla heiti gömlum, íslenskum nöfnum eins og Hrólfur, Urður og Eyja, á meðan börnin í Seljaskóla heita Alexander, Mónika og Ísabella. Það er bara allt annar hópur fólks sem kýs að setjast að í Austurbænum en þeir sem búa í Seljahverfi. Þar af leiðandi hlýtur það að hafa áhrif á hvernig fólk kýs að eyða ævinni.
Hef oft hugsað um, hvernig það væri ef ég héti öðru nafni. Og hvaða nafn myndi "passa" við mig. Hef svosum alltaf sætt mig við Fanney, en ég gæti ekki sætt mig við Fanný. Einhverra hluta vegna hefur það nafn alltaf farið alveg óendanlega í taugarnar á mér. Líka mjög pirrandi þegar ég er í útlöndum og kölluð Fanny. Hata það. Sennilegast hata ég það bara því það er svo líkt mínu nafni. En nóg um þetta, er þreytt og rugluð. Var loksins að klára að horfa á 2.seríu af Lost. Þar sem ég hef "sambönd" ólíkt öðrum fjölskyldumeðlimum mínum ;), þá ætla ég ekki að býða eftir Lost þar til það byrjar í hjá Rúv, heldur fæ ég fyrstu 10 þættina af 3.seríu á morgun. Góða nótt

Monday, January 08, 2007

Ugly Betty

Er búin að vera að horfa á Ugly Betty um helgina. Mjög skemmtilegir þættir. Hérna er hægt að horfa á þá á netinu ;) http://tv.peekvid.com/s3537/

Sunday, January 07, 2007

crépes, absinthe og almennt djamm

Ótrúlega skrítið hvernig maður byrjar að skoða einn hlut á netinu og endar svo í einhverju allt öðru. Fór á Amazon til að skoða hönnunarbækur, finn þá bók eftir Ditu Von Teese um Burlesque, og fór þá að gúgla Burlesque og lenti á grein á wikipediu um það og endaði svo með því að lesa grein um Absinthe. Nokkuð merkilegt.
Annars fór ég út í gær, og í fyrradag. Fór á Kaffibarinn, það var fínt, svona eins og venjulega og ekkert merkilegt gerðist. Dansaði og drakk þó mjög mikið. Eins og venjulega. EInhver gaur kastaði glasi í annan gaur og fékk sá gaur sár á hausinn og það blæddi mikið. Svo fer glasakastarinn og tekur mitt glas af borðinu og virðist ætla að stela drykknum mínum! Vinkonu minni fannst ég skrítin að rífa glasið aftur af honum. Eins og það að kasta glösum í fólk vinni þér inn fría drykki! Það sem fólki dettur í hug. Annars tók ég mig til og bakaði Crépes í morgunmat. Ekki amalegur morgunmatur það. Crépes með sykri og pepsi. Gæti ekki verið betra. Annars er mjög einfalt að gera Crépes. Hér er uppskriftin:

1 bolli hveiti
3/4 bolli mjólk
1/2 bolli vatn
3msk bráðið smjör
2 stór egg

Að sjálfsögðu er þetta bara eins og að baka pönnukökur, en þær eru ekki eins feitar og sætar og þessar íslensku. Líka gott að búa til einhverja góða tómatsósu með þessu til að hafa í kvöldmatinn. Ég geri oftast með tómat, basíliku, gulrótum og lauk. Namminamm. Allavega, nóg rugl, borðið Crépes. Nennir einhver að kommenta, sé á trackernum mínum að það er fólk sem les þetta. You can´t hide!

Wednesday, January 03, 2007

að fullorðnast

Þar sem það kemur nú nýtt ár, þá fer maður að fatta að maður fer að eldast um enn eitt árið. Ég verð nú sjálf 24 ára og þá fer maður svolítið að hugsa um að maður fari að "fullorðnast". Samt þegar ég fer að hugsa um "að fullorðnast", þá fer maður ósjálfrátta að hugsa um framtíðina og hvar maður sér sig eftir 10 ár eða svo. Ég hef hugsað að kannski verð ég gift og með börn og hús. En ég sé það ekki fyrir mér.
Veit ekki einu sinni hvort mig langi í börn, mann og hús. Finnst börn yndisleg, en ég vil hafa þau í öruggri fjarlægð, geta sloppið frá þeim líka og verið skemmtilega frænkan í staðinn. Einhver verður að vera skemmtilega frænkan. Veit ekki hvort ég eigi eftir að gifta mig, skil eiginlega ekki ástæðuna fyrir því að gifta sig. Hvað það varðar að eignast hús eða bíl, þá held ég að ég sleppi því. Ekki nema að ég eigi því mun meiri pening. Vil ekki þá skuldbindingu sem felst í því að þurfa að búa á Íslandi því ég geti ekki farið frá öllum hlutunum sem ég er búin að "kaupa". Flestir enda með því að láta hlutina eiga sig og láta eignir stjórna gerðum sínum.
Nehh, held ég verði bara ekkert "fullorðin" í þessum skilningi...

óheppni

Vinkona mín var að benda mér á þessa grein af RUV, þvílík óheppni. Afritaði hana hérna. ÞEtta er alveg fáránlega fyndið, þó með vott af samviskubiti.

Þrekvaxin kona lokar helli
22 ferðamenn lokuðust inni í Cango-hellunum í Suður-Afríku þegar nokkuð breiðvaxin kona hrasaði á leið út um þröngan innganginn. Konan sat föst í tíu klukkustundir.

Meðal þeirra sem lokuðust inni, var sykursjúkur maður og tvö astmaveik börn. Björgunarmanni tókst að skríða yfir konuna með insúlín, vatn, súkkulaði og teppi meðan félagar hans reyndu að losa stífluna. Með því að smyrja konuna og klettana í kringum hana með matarolíu, tókst að lokum að draga hana út. Kostnaður við björgunina nemur sem svarar 400.000 íslenskum krónum.

Monday, January 01, 2007

gleðilegt ár!

Var nú búin að læra að segja Gleðilegt ár á nokkrum öðrum tungumálum í gærkveldið, króatísku, ítölsku, spænsku og dönsku, en einhvers staðar í ölæðinu gleymdist það. Við Jeppe byrjuðum gamlárskvöldið með því að elda lambalæri og meðlæti. Þetta var alveg hrikalega góð máltíð og ég er bara nokkuð stolt af okkur fyrir afrekið að elda "alvöru steik og alles". Eftir það horfði ég nú á þetta blessaða áramótaskaup, sem ég kemst alltaf meira að á hverju árinu að ég hefði átt að sleppa. Afhverju eyðir maður dýrmætum klukkutíma í enda ársins í svona leiðinlegan þátt. Ætti maður ekki að nota afganginn af árinu í eitthvað annað. Fyndið samt allt þetta fár yfir að árið sé að líða, ég meina, hvað er ár, eða tími yfirleitt nema eitthvað sem við samþykktum að væri til. Hmm, ætti kannski bara að búa til mitt eigið tímatal. Allavega, fórum svo upp í hallgrímskirkju til að horfa á árið líða þaðan. Hef aldrei verið þar áður á áramótunum og ekki laust við að ég væri pínku hrædd. Auðvitað var rosa stemming og allt það, en fólk var svo að skjóta flugeldum allt í kringum mig, var pínku skelkuð verð ég að segja. Við Jeppe fórum svo í partí hjá tveimur vinum hans, sem ég komst svo að að ég þekkti í sitthvoru lagi. Þetta var bara ágætis partí og mjög alþjóðlegt. Hitti einmitt dáldið marga sem ég þekkti, einmitt líka úr sitthvoru lagi, þannig að það var ágætt.
Jæja, en hvað áramótaheit þetta árið varðar, þó ætla ég ekki að hætta að drekka kók. Er búin að segja það held ég á hverju ári og aldrei tekst það. Set mér raunhæfari markmið núna.
nr1) Ætla að fara oftar út með ruslið. Á það til að gleyma því ansi oft og lendir sú kvöð oftast á Jeppe.
nr2) Ætla að fara að kaupa mér eina hönnunarbók í hverjum mánuðir, ætlaði að vera byrjuð á þessu, en bailaði á því, en núna er engin afsökun, því þetta er nú áramótaheit.
nr3) Ætla að heimsækja allavega 4 útlönd á þessu ári.
nr4) Er búin að ákveða eitt fyrir ykkur, lesendur góða, því ég veit að það er fólk sem les þetta blogg í laumi, trackerinn minn segir það, þið ætlið að commenta oftar á mig!
web page visitor counters
Dell Coupons
eXTReMe Tracker