Sunday, April 30, 2006

harðsperrur

Ég er að drepast í kálfunum, get varla hreyft mig. Já, þetta hljómar eins og ég hafi verið í hörku líkamsrækt, en nei, svo er nú ekki. Heldur var ég í gær að hjálpa Andi að flytja. Svo vill til að gamla íbúðin hennar er á 5.hæð, án lyftu. Svo vill líka til að 5.hæð í Berlín er ekki eins og 5.hæð í Reykjavík, nei, því að lofthæðin er svo rosaleg að stigarnir verða helmingi lengri. Við Helga fórum svona 50 ferðir með drasl, fínt að fara niður með draslið, en hrikalegt að labba upp aftur. Þess má geta að Helga er líka með harðsperrur svo að ég er ekki eini auminginn :)
Annars var mjög gaman að hitta vini Andi líka, verst var að þetta voru flest fjallmyndarlegir drengir, og ekki endilega gaman að hitta þá þegar maður er fjólublár í framan af þreytu eftir flutningana, úff, en þeir fengu þó líka að sjá mann sætan þar sem ég fór með Andi á tónleika um kvöldið. Þetta var bara ágætis kvöld, og má segja að afmælisdagurinn hafi bara verið ágætur.
Annars erum við Helga að fara á grímuball í Udk í kvöld. Verður nú vonandi gaman að sletta úr klaufunum með skólafélögunum og sjá hvort partýin jafnist á við í Lhí. Hlakkar til að fara í búninginn, fæ lánaða ljósa hárkollu hjá Andi, svo verð ég hvítmáluð í framan. Hugsa að ég verði bara soldið krípí og sjúskuð dúkka.

Saturday, April 29, 2006

ég á afmæli í dag

ég á ammæli í dag
ég á ammæli í dag
ég á ammæli, ég fanney
ég á ammæli í dag

ég er 23ja ár´í dag
ég er 23ja ár´í dag
ég er 23ja ár ég fanney
ég er 23ja ár´í dag

veiiii...........

Thursday, April 27, 2006

ich heiβe Fanney

Eins og sjá má, þá er ég byrjuð í þýskukennslu. Það var bara alveg stórskemmtilegt, algjörlega beisik, en bara gaman. Er bara byrjuð á fullu í skólanum, komst inn í illustration bekkinn, þannig að núna er ég í tveimur bekkjum. Yfirleitt má maður bara vera í einum bekk, en Erasmus nemar fá oft undantekningar. Líður dáldið eins og ég sé komin aftur í Fb, er búin að vera í einhverri teiknikennslu í illustration áfanganum, en það er bara gott að fara aftur í grunninn. Fáum samt stórt verkefni í næstu viku, held ég, þar sem við gerum frímerki. Þetta verður keppni sem nokkrir bekkir taka þátt í um að gera frímerki fyrir þýska póstinn. Fór líka í týpógrafíuáfanga, algjör byrjun líka, en lærði samt ýmislegt sem ég lærði ekki hjá brjáluðu calligraphiukattarkellingunni sem kenndi mér í fyrra. Vorum að gera futura letur, sem er gert með reglustriku og syrkli(hvernig skrifar maður þetta!). Letrið er ótrúlega reiknað út, og hver sem er getur gert þetta. Leið dáldið eins og verkfræðingi, en maður öðlast bara betri skilning á letri, því letrið er hannað í sömu hlutföllum og klassísku letrin. Annars er veðrið búið að vera gott, þó það sé smá rigning í dag. Er eiginlega bara fegin, var 19 stiga hiti í fyrradag, meika ekki hita yfirleitt, þannig að það er bara fínt að vera í skólanum. Veggirnir eru svo þykkir að það er bara þægilega svalt inni. Jæja, skrifa meira seinna, ætla að njóta frísins sem ég hef í dag, eða þar til kl 6 þegar ég fer í skólann...

Sunday, April 23, 2006

menningarleg helgi

Gerði bara ýmislegt um helgina. Byrjaði föstudagskvöldið með því að fara á opnun á norrænni listasýningu-hard revolution eða eitthvað þannig. Tveir úr Lhí voru að sýna meðal annara norrænna ungmenna. Mér fannst þessi sýning ekkert sérlega spennandi, það sem var skemmtilegast var gaur sem spilaði einhverja hljóð/tónlist performans eitthvað, en ég held að hann hafi bara verið í tilefni opnunarinnar en ekki á sýningunni sjálfri. Eftir þetta fór ég á norska galleríið, þar var samsýning nokkurra listamanna, multikúltúral. Strákur frá NY sem er skiptinemi hérna bauð mér, var að sýna. Mér fannst nú ekkert sérlega mikils til verk hans koma, en sá annað verk þar sem var alveg stórskemmtilegt. Einhver norsk listakona með 2 videoverk, annað sýndi kínversk ungmenni sem voru að segja hvað nöfnin þeirra þýddu, flest hétu í höfuðið á uppáhalds mangakarakter foreldra þeirra. Hitt videoið sýndi eldri konur sem voru að tala um nöfnin sín, þar voru geðveikar pælingar á bak við nöfnin og þær vissu ótrúlega mikið um hvað þau þýddu og mjög fróðlegt allt saman. Leiðinlegt að sjá samt hvað pælingar á bak við nöfn eru að deyja út, finnst það líka dáldið þannig á íslandi. Eftir það skrapp ég á aðra opnun, en hún var meira bara svona í leiðinni, einhver ljósmyndasýning, allt í lagi bara.
Já, í gær fór ég svo á smá pöbbarölt með Andy. Hún sýndi mér alla alvöru kúl staðina sem berlínarbúaar fara á. Mjög fínt. Fórum á mjög fyndinn stað sem heitir Dr Punk. Þetta er pínkulítill staður, lítur út eins og félagsheimili, mjög blandaður hópur fólks. Ódýrt að drekka. En það sem er sérstakt við þennan stað er að í miðjunni er borðtennisborð. Svo koma bara allir sem vilja með spaða og mynda hring um borðið. Svo labbar fólk bara og skiptast á að slá boltann. Ef maður hittir ekki þegar kemur að manni, þá dettur maður út. Svo fækkar alltaf í hópnum og á endanum er bara einn sigurvegari eftir. Það skemmtilega er að maður þarf ekkert að vera góður í borðtennis, bara að vera með.
Uppgötvaði líka nýjan drykk í gær. Þetta er selt í flöskum hérna, en það er líka hægt að gera þetta sjálfur. Þetta er blanda af bjór og kók. Drykkurinn sem er seldur heitir Mixter eða Diesel, eftir tegundum, en ég er komin með miklu betra nafn á þetta- Kolabeer. Sé alveg fyrir mér flöskuna og lógóið, kannski ég búi til lógó fyrir þetta í ganni, má hvort eð er gera það sem ég vil í skólanum. Annars langar mig líka að hanna spilastokk. Hef langað að búa til spilastokk síðan ég var lítil. Langar að gera svona spillt ógeðslegt kóngafólk, í svipuðum stíl og teikningarnar sem ég gerði fyrir myndskreytingaráfangann. En allavega, þetta er orðinn svo langur póstur að ég hætti í bili.

Friday, April 21, 2006

frelsi

Jæja, loksins er ég komin með upplýsingar um hvernig þessi skóli virkar. Þú gerir það sem þú vilt. Satt að segja þá veit ég ekki hvað ég á að gera við allt þetta frelsi, hræðilegt að segja þetta, en þetta er sannleikurinn. Ég vel sem sé nokkra kúrsa sem eru kannski 1 sinnum í viku, 2 tíma alla önnina, þar fæ ég kannski einhver verkefni. En afgangurinn af tímanum er alveg frjáls og ég bara geri mín eigin verkefni sem ég þarf að sýna prófessornum mínum annað slagið. Hugsa að ég taki kúrs í týpógrafíu, einhvern plakatakúrs og illustration. Svo bara dunda ég mér við það sem mér finnst skemmtilegt. Vinnustofan mín er opin allan sólarhringinn, alla daga. Fékk skrifborð sem er mitt, svo í morgun þegar ég kom var komin tölva líka. Hef samt ekki hugsað mér að nota þessa tölvu því hún er ca frá fornöld, eldgamalt mackintosh stýrikerfi, photoshop 6 o.s.frv. Verst er þó með prentaðstöðu, því svo virðist sem ég þurfi að borga fyrir prentun. Ömurlegt. Þarf að fá betri upplýsingar um þetta. Bekkurinn minn virðist vera blandaður, grafískir hönnuðir og myndlistarnemar. Þetta verður samt örugglega ágætt.

Thursday, April 20, 2006

chorinerstrasse 77

Jább, í nótt var ég mína fyrstu nótt í nýju íbúðinni. Andy er ekki ennþá flutt inn, en ég hafði bara allan staðinn fyrir mig. Herbergið er risastórt og ég fékk hálfgert víðáttubrjálæði þarna inni. Eldaði mér líka ótrúlega gott pasta. Kannski var það bara svona gott því þetta var fyrsta heimatilbúna máltíðin mín í 2 vikur, og ég get alveg sagt að ég saknaði þess. Var fyrst pínku hrædd við eldavélina, því þetta er gaseldavél, en maður þarf fyrst að kveikja á gasinu og koma svo með eldspýtu að plötunni svo það kvikni eldur. En Andy sýndi mér hvernig þetta virkaði, og var alls ekki eins hræðilegt og ég óttaðist fyrst. Fór líka í bað, mmm, hef ekki farið í bað í 2 ár, alltaf bara sturtur þar sem ég hef búið. Algjör lúxus að hafa bað hérna, því maður labbar svo mikið og ég var orðin svo þreytt í löppunum. Hér er ekkert hægt að hoppa bara inn í næstu sundlaug í heita pottinn. Er dáldið mikið mál að fara í sund hérna, eru svo fáar sundlaugar. Ætlaði að reyna að halda áfram að synda á morgnana, en sé það ekki alveg gerast hérna. Held ég kaupi mér ódýrt hjól í staðinn, allir á hjólum hérna.
Fór líka í skólann í fyrsta skiptið í gær, var samt bara svona fundur með skiptinemunum. Fór svo í 3 tíma sigtseeing í rútu, hef aldrei farið í svoleiðis áður og var eiginlega hissa hvað það var gaman. Lærði alveg heilmikið um borgina og sögu hennar. Margt sem maður skilur betur núna. Er að fara á eftir að reyna að hitta prófessorinn minn, þ.e ef ég næ í hann. Get víst ekkert valið fyrr en ég spjalla við hann. Jæja, segi þetta nóg í bili, bless, hress eins og fress

Tuesday, April 18, 2006

"nýja" myndavélin mín


Keypti svona myndavél á markaði um helgina, 3 evrur, kostakjör. Veit samt ekki hvort hún virkar en hún er bara svo falleg. Mitt eintak er reyndar alveg svart. Komst að því að hún er frá 1975, ég er ekkert myndavélaséní, en komst að því að það þarf öðruvísi filmu, í einhvern veginn boxi. Þarf að tékka á þessu, langar svo að nota hana. Var ennþá í kassanum þegar ég keypti hana, mjög vel með farin, fylgdi meira að segja bæklingurinn með, sem er mjög flottur, ótrúlega tæknilegur og sterill eitthvað, en samt svo töff, 70s

Monday, April 17, 2006

dónalegur útlendingur

ömurlegt þegar maður kemst að því að maður kemur fram sem dónlalegur útlendingur. Er núna búin að vera hérna í næstum 2 vikur, og var fyrst í gær að komast að því að hér er siður að tippa þjónustufólkið. Þar sem ég er ekki með neina eldunaraðstöðu, hef ég þurft að borða mikið á kaffi- og veitingahúsum, og mér líður alveg hræðilega þegar ég hugsa um illu hugsanirnar sem ég hlýt að hafa fengið frá blessuðu þjónustufólkinu. Þetta er gallinn við að vera frá íslandi, maður kann ekki að haga sér í öðrum löndum. En núna skal þetta breytast, þó það þýði dýrari máltíðir.
Annars fórum við Helga og Hulda út að borða í gær í tilefni páskanna. Fengum okkur þó ekki hefðbundnar páskamáltíð heldur fórum við á mexíkanskan veitingastað. Eftir það fórum við á ótrúlega töff skemmti-veitingastað sem heitir White trash. Hann er ótrúlega stór og staðsettur í húsnæði sem var áður kínverskur veitiingastaður. Fólkið sem var þarna var ótrúlega fallegt og töff, og allir einhvern veginn 1920s. Svo voru karlþjónarnir í jakkafötum, en konuþjónarnir voru í annaðhvort leðurkorselettum eða mjög fáklæddar. Við sátum nálægt einhverjum hóp af strákum, og komu alltaf annars lagið fáklæddar konur að dansa fyrir þá, mjög fyndið. Tónlistin var líka mjög góð, gömul amerísk bigband og jasslög. Mjög kúl, ætlum pottþétt að fara þangað aftur, uppáklæddar í kjól með rauðan varalit.

Friday, April 14, 2006

hamingjudagur

Ég og Helga erum alveg búnar að vera í skýjunum í dag. Svo furðulega vildi nefnilega til að við fengum báðar húsnæði sama daginn. Ég fékk herbergið á Chorinerstrasse sem ég vonaðist eftir og hún verður á Kolvitchstrasse sem er alls ekki langt frá og líka mjög góður staður. Annars ætluðum við að vera ótrúlega menningarlegar í dag og kíkja á Ráðhúsið, því föstudagurinn langi er alls ekki eins langur hérna og heima því nánast allt er opið fyrir utan stöku verslanir. Allavega, löbbuðum langa leið að ráðhúsinu í grenjandi rigningu, án regnhlífar og komum að dyrunum og hættum við. Nei, höfðum grunað þetta um að vera túristagildru þegar við mættum endalaust mörgum hjörðum af regnhlífum, en þegar við sáum 30 metra langa röðina af túristum með regnhlífar að frjósa úr kulda til að skoða eitt hús, þá hættum við við. Getum alltaf skoðað þetta ráðhús án þess að næla okkur í 40 stiga hita. Gerðum okkur þó dagamun og skelltum okkur í sonycenter í bíó.Sonycenter er alveg furðulegasti staður í heimi, allavega miðað við Berlín. Þegar maður stígur úr lestinni þá líður manni dáldið eins og maður komi úr tímavél og sért 20 árum seinna en áður en maður steig inn í hana. Þýska ríkið á að hafa verið svo fátækt að þeir seldu bara risastóran bita úr miðbænum til Sony, þannig að núna standa þar glerháhýsi sem hýsa nokkur bíó og veitingahús. Ákváðum við að fara á myndina "V for Vendetta" sem er alveg mögnuð mynd og með ensku tali. Jább, komst að því að ef það stendur OV fyrir aftan myndina þá þýðir það original version. Gott að komast að því.

Wednesday, April 12, 2006

í lífshættu

Eitt af því sem er mjög ólíkt með Berlín og Reykjavík eru hjólabrautirnar. Hlutur sem ég bara virðist alltaf gleyma. Í dag var ég t.d í stórkostlegri lífshættu þegar 5 hjólreiðamenn örugglega á 80 km hraða keyrðu næstum á mig. Pælið í því hvað það hlýtur að vera sársaukafullur dauðadagi, því ég trúi því alveg að það sé hægt að deyja þannig. Ef ekki með því að fara í tvennt í miðjunni, þá allavega úr hjartaáfalli, sem kom næstum fyrir mig. Verð víst að passa mig framvegis.
Annars fór ég að skoða íbúð í dag sem er á Chorinerstrasse í Prenzlauerberg/Mitte, sem er algjörlega besti staðurinn hérna.Vona alveg svakalega að ég fái þessa íbúð, og stelpan sem yrði að leigja með mér virðist ótrúlega fín. Er eiginlega komin með leið á Sovétbælinu mínu, þegar maður er inni venst maður lyktinni, en í hvert skipti sem maður kemur inn finnur maður fíluna og þarf að byrja á að galopna gluggann. Verst að ég er komin með kvef og var með hausverk í gærkveldi. Jæja, nenni ekki að skrifa meir, bless bless.

Tuesday, April 11, 2006

Ég er smekkmanneskja

Æi, þetta var bara næs dagur. Við Helga nutum þess að geta legið upp í rúmi eins og klessur til hádegis, án þess að vakna upp við annað fólk að pakka eða ryksugur, eða að þurfa að flytja á milli herbergja. Fílan er þó ennþá í herberginu, þó við værum með opinn glugga í allan gærdag og nótt, sem verður til þess að við erum báðar búnar að vera hálfskrítnar í dag, held ég hafi nælt mér í kvef. Talandi um kvef, næ því ekki hvað þjóðverjar eru alltaf að snýta sér. Þeir snýta sér í lestunum, og allir eru með kleenex. Hef meira að segja séð ókunna konu bjóða annari konu kleenex þegar hún saug létt upp í nefið á íslenska vísu. Get ekki að því gert, en ég bara á mjög erfitt með að snýta mér fyrir framan annað fólk. Ég vil bara snýta mér afsíðis, í einrúmi.
Fyndið, fórum samt á veitingastað áðan, bara svona í milliverðflokki, fín máltíð á 1000 kall. Allavega, Helga fékk sér einhverja steik, en ég fékk mér Faitas, neinei, er ekki bara troðið á mig einhverjum risasmekk. Var ekki einu sinni spurð um hvort ég vildi það, bara ráðist á mig. Þannig að ég var með smekkinn, þorði ekki að taka hann af mér. En verst var að ég sá engan annan með smekk, allavega ekki fullorðna fólkið....

Monday, April 10, 2006

hreingerningin mikla

Í dag komst ég að því hvernig fólkinu í "Allt í drasli" þáttunum líður. Já, ég o Helga lögðumst í hreingerningu á nýju bækistöð okkar á Triftstrasse. Og þvílík svínastía, ég dauðsé eftir því að hafa ekki tekið Fyrir og Eftir myndir, því jeminn hvað hún mamma hefði verið stolt af mér. Við tókum þetta svo í gegn, og núna er þetta bara hið fínasta speis, fyrir utan fíluna sem við erum að reyna að útrýma með opnum gluggum og ilmkertum. Þetta er ótrúlega fyndin íbúð, "úthlutað" er það orð sem helst kemur upp í hugann. Íbúðin er frá sovéttímanum, og því miður hefur hún líka hið klassíska sovéska klósett þar sem maður getur skoðað kúkinn áður en maður sturtar. Innréttingarnar eru afskaplega beisik og ekkert verið að leggja í óþarfa fagurfræði á þeim. En þetta er bara stemming, og dugar fínt þennan mánuð.
Fórum svo í Rúmfatalagerinn, já, þið sjáið rétt, Rúmfatalagerinn er líka í þýskalandi og gengur þar undir nafninu Danish belagen eða eitthvað álíka. Þurftum að fara dáldið langt að kaupa dýnurnar, og ég massaði algjörlega flutinginn á þeim, þar sem ég bar þær á hausnum eins og sönn afrísk kona á milli þess sem við fórum í þrjár lestir. Vöktum dáldið mikla athygli, tvær manneskjur stoppuðu okkur til að spurja hvar við hefðum keypt dínurnar og hvað þær kostuðu. Mjög skrítið, veit fólk ekki hvar á að fá dínu í Berlín eða hvað.
Annars er þýskan mín alveg að fara batnandi, skil stundum þegar fólk talar við mig, og er farin að geta tjáð mig í stikkorðum með misjöfnum árangri. Fór alveg á kostum í dag við það að reyna að spyrja um stórmarkað sem selur mat: " supermarket....essen....essen.....supermarket......já, gífurlegir málahæfileikar hérna. En konan virkilega skildi mig að lokum og við Helga fórum í stórmarkað, þar sem maður fær ekki einu sinni poka í endann, fólk virkilega kemur sjálft með poka. Allt mjög umhverfisvænt hérna, líka hell að henda rusli, allt flokkað. Meira að segja glerið er flokkað eftir lit. Kann ekki einu sinni að flokka ruslið svona vel, dríf mig bara geðveikt mikið og vona að enginn taki eftir mér. Jæja, þarf að fara að sofa, góða nótt...

Friday, April 07, 2006

Berlín...loksins komin!

Jább, mikið rétt, ég er komin til Berlín. Eiginlega ekkert hefur gengið upp hjá mér, en samt er búin að vera mjög gaman.

1) FARANGUR! Jább, tók með mér allt of mikinn farangur, ætlaði að pakka létt, en nei, mér er það bara ekki eiginlegt, er búin að komast að því. Verst er að annað hjólið á töskunni minni brotnaði af, þannig að mikið mál er að flytja Hlunkinn(það er nýja nafnið á töskunni minni).
2) HÚSNÆÐI! Er ekki komin með fast húsnæði. Vorum á hosteli fyrstu nóttina sem var fínt, en þurftum að flytja daginn eftir því það var fullt. Fórum á annað hostel, sem er vægast sagt skrítið. Höfum ekki þorað að panta nema eina nótt í einu, upp á ef við fáum íbúð, þannig að við höfum prófað 4 mismunandi herbergi. Og þau eru mismunandi, því hvert og eitt hefur sitt eigið þema og eigin "hönnun", sem er vandlega merkt hönnuðinum. En þvílík hönnun, þetta er hrikalegt. Yfirleitt felst hönnunin í mismunandi málningu og misljótu skrauti. Til dæmis er ég núna í "the beatle room", sem er málað í velgjubláum lit, en loftið á að vera eins og rauður eldur eða eitthvað og búið að festa eitthvað hrikalegt járnarusl sem lítur út eins og risastór bjalla. Þetta er samt með því skárra, vorum líka í "the garden of eden" sem var með grænu teppi á veggjunum og hrikalegum gulum gerviblómum út um allt. Já, það má segja að þetta sé athyglistvert. En við erum hérna bara í eina nótt í viðbót, því íslenskur strákur sem hafði samband við okkur í gegnum ísland-berlín, reddaði okkur húsnæði fram í apríl á meðan við erum að leita. Þetta er pínkulítil íbúð, ca 12 fm, sem hann var búinn að leigja út apríl, en er fluttur á annan stað. Við fáum að vera þar frítt, því annars stendur þetta bara autt, en með því skilyrði að við hjálpum honum að þrífa...sem er ekkert mál, því okkur dettur ekki í hug að sofa þarna inni fyrr en við erum búnar að því. Það er hrikalegt, þvílík svínastía segi ég nú bara, matur og bjórdósir út um allt og fastur matur á eldavélinni, og ég er ekki búin að leggja í að skoða baðherbergið, en allt er betra en að borga morðfjár fyrir fáránlegt hostel.
Er búin að skoða 2 staði til að búa á og hringja trilljón símtöl, en ekki fengið neitt. Er þó vongóð um íbúð sem ég skoða á miðvikudaginn næsta, en hún er ekki laus fyrr en 15. Sú íbúð er á besta staðnum og á sanngjörnu verði. Myndi þá leigja hana með stelpur úr Humbolt university, og mér fannst hún hljóma mjög fín í símanum. Vona bara það besta.
3)SKÓLINN! Er búin að skoða skólann. Fékk þó vægt sjokk þegar ég talaði við alþjóðafulltrúann því að ég komst að því að ég var sett í myndlistardeildina en ekki grafíska hönnun. En fæ sennilega að taka kúrsa úr hinum deildunum, þannig að ég er ekki áhyggjufull, er eiginlega bara nokkuð sátt núna og held það verði bara gaman að fá að flippa smá. Myndlistin er líka í geðveikt flottu gömlu húsi með ótrúlega töff garði og svona. Hlakkar bara til að byrja, en það er nú um vika í það.

Annars er bara búið að vera gaman, er búin að eyða miklum tíma á Gorki Park, því þar er frítt húsnæði og gott te. Veðrið er nokkuð gott og bara sól og fínerí í gær. Jæja, kveð að sinni, bæbæ
web page visitor counters
Dell Coupons
eXTReMe Tracker