Monday, March 24, 2008

Pólskir Páskar

eru allt öðruvísi en íslenskir páskar. Ég og Piotrek fórum til Wroslaw síðdegis á föstudaginn. Kærastan hans náði í okkur á lestarstöðina og fórum svo í íbúðina þeirra. Málið er að þau eru i flutningsferlinu, nýbúin að mála og voru nýbúin að kaupa fullt af húsgögnum í Ikea sem enn átti eftir að setja saman. Þar sem foreldrar Piotreks búa í littlum bæ utan við Wroslaw, þá var planið á föstudaginn að borða, setja saman rúmið þeirra, til að þau hefðu eitthvað að sofa á og svo færum við út og kíktum á næturlífið í Wroslaw. Ennnnnn, eins og það er nú alltaf frekar auðvelt að setja saman hluti úr Ikea, þá var þetta rúm algjört drasl, þannig að við enduðum öll á að fara að sofa pirruð og drukkin kl 12, og þau á dínu á gólfinu.

Vaknaði svo snemma á laugardagsmorguninn og labbaði um gamla bæinn. Fór þar á meðal upp í turn á kirkju sem var meira en 100 metra hár, og hringstigi alla leiðina upp. Ein versta hugmynd sem ég hef fengið á ævi minni. Þetta var þröngur stigi, með háum tröppum og ég hélt í alvörunni að ég væri að fá hjartaáfall af þreytu. Að vísu var útsýnið ferlega fallegt og gott, en átti erfitt með að njóta þess þar sem ég gat varla andað. Og leiðin niður var ekkert betri, var ringluð og þurfti nokkrum sinnum að stoppa, því lappirnar á mér skulfu svo mikið. Að vísu er ég ekki í besta formi, en vil taka það fram að annað fólk var álíka illa á sig komið eftir þessa göngu.

Upp úr 5 komum við Piotrek í heimabæ hans sem er lítill og ljótur. En það skipti engu máli því hann á yndislegustu foreldra sem hægt er að hugsa sér. Mamma hans eldaði handa okkur pierogi og súpu upp úr 6 sem var ótrúlega góð. En þegar ég var nýbúin að borða mig sadda segir hún: þið fáið almennilega máltíð kl 9 þegar hinir gestirnir koma. What. Því borðuðum við í rauninni tvöfaldan kvöldverð, því að máltíðin kl 9 var alvöru stór páskamáltíð. Og það var náttúrulega ekki hægt að segja nei við neinu, því þá væri maður dónalegur, þannig að ég borðaði allt sem fyrir mig var lagt. Kiktum svo aðeins á "lífið" í bænum um kvöldið, en það var ekki mikið. Hitti þó æskuvinkonu Piotreks sem sagði mér fullt af hallærislegu sögum af honum. Sem er alltaf skemmtilegt.

En við máttum ekki fara seint að sofa, því hefðin í Póllandi er þannig að á Páskadag er aðal málið páskamorgunverðurinn. Vöknuðum því snemma og dressuðum okkur upp. Fyrst er farið með bæn(ég og piotrek þótumst bara) og svo er skipts á eggjum og fólki óskað alls hins besta. Svo er sest að snæðingi, og allskyns réttir í boði. Skinkur og salöt og margir skrítnir hlutir sem ég þorði ekki annað en að smakka. Svo vorum við boðin í skírn seinna um daginn hjá frænda Piotreks og þurftum því að fara í messu. Kaþólska messu á pólsku...

Fyrir betur fer stóð messan bara í 1 klst og þá var farið á veitingastað þar sem skírnarveislan var. Og þvílík skírnarveisla! Hef aldrei á ævi minni borðað eins mikið! 5 réttir og allir fáránlega góðir. Er orðin mikill aðdáandi pólskrar matargerðar eftir þessa ferð. Matseðillinn var svona:
-Steikt lifur í eplasósu, sem er fáránlega skrítin en góð blanda.
-Barcz súpa, sem er pólsk rauðkálssúpa með pierogi með sveppum inní. Ótrúlega góð.
-Aðalrétturinn voru svo einhverskonar svínakjötsrúllur með sveppum inn í, sósu, allskyns kartöflum og salati og öðru meðlæti.
-Szarlotka, sem er pólsk eplakaka, borin fram með ís, rjóma og súkkulaðisósu.
-svo skírnarkakan sem var 3ja laga, súkkulaði og hvítt súkkulaði og einhverskonar kaffibúðingur. Rosalega góð.
Þess má geta að við vorum á veitingahúsinu í um 5 tíma!

Svo komum við heim núna í dag á mánudegi. Þannig að ferðin var í rauninni bara ótrúlega mikill matur og ótrúlega mikil pólskukennsla fyrir mig. Því að fjölskylda Piotreks talaði bara pólsku og ég talaði bara ótrúlega mikið við þau. Og ég komst að því að málfræðilega tala ég mjög rétt og mér var bara almennt hrósað frekar mikið fyrir pólskuna mína. Þannig jibbí jei :)

Thursday, March 20, 2008

gleðilega páska!

hæ hæ og hó hó. Er svona hress, því að ég er búin að vera með einhverja kvefpest í marga daga. En þökk sé öllum kveflyfjunum sem ég aflaði mér í apótekinu þá er ég að verða hressari. Sem væntanlega þýðir að ég hafi náð að fá réttar töflur, þrátt fyrir að tala bara pólsku við afgreiðslukonuna. Geri aðrir betur :D
Í dag ákváðum við Agnieszka að þrífa íbúðina dáldið vel, því að Helga kemur að heimsækja mig í næstu viku. Fjarlægði meira að segja nokkra af þeim fjöldamörgu köngulóarvefjum sem eru út um alla íbúð. Næ ekki í alla, því hérna er rosalega hátt til lofts. Er farin að aðlagast náttúrulífinu hérna á Sw. Marka. Erum með allavega 6 Stanislawa á klóstinu, og þeir pirra mig ekkert. Upphaflega var bara ein könguló sem að sjálfsögðu ég skýrði Stanislaw. En svo eru þær orðnar aðeins fleiri. Við Agnieszka veltum því fyrir okkur hversu marga Stanislawa þarf til að þeir séu of margir. Hmmm... Svo eru það náttla dúfurnar fyrir utan hjá mér. Átti eftir að segja ykkur frá þeim. Málið er að húsið mitt er svona bakhús, og glugginn minn snýr að svona littlu plani og þar búa rosalega margar dúfur. Fyrst þegar ég flutti inn, þá vaknaði ég við það að þær væru að "tala" saman á morgnana. Fór í taugarnar á mér fyrst, en núna líkar mér vel við þær og gef þeim stundum að borða. Ein dúfan er meira að segja komin með hreiður fyrir utan gluggan sem ég opna aldrei. Engin egg ennþá þó. En allavega, skrifa sennilega ekki aftur fyrr en eftir Wroslawsferðina mína, þannig bara Gleðilega páska!

Sunday, March 16, 2008

heimilisfang

Þar sem fólk virðist í alvörunni vilja senda mér páskaegg, þá er þetta heimilisfangið:

Fanney Sizemore
Sw. Marka 8/13
32-020 Krakow
Poland

Annars fór ég í smá ferðalag með skólanum í dag. Fórum til lítils bæjar sem ég man ekki hvað heitir, en þar er rosa mikið gert úr pálmasunnudeginum. Pólverjar halda svo brjálað mikið upp á allar hátíðir og missa sig gjörsamlega. Mjög athyglisvert. Að sjálfsögðu eru hátíðarnar með frekar trúarlegu sniði, þannig að kannski ekki alltaf svo skemmtilegar. En athyglisverðar samt sem áður. Fórum svo og skoðuðum ótrúlega fallegan kastala í nágrannabæ. Annars er ég bara þreytt núna og skrifa meira seinna.

Friday, March 14, 2008

daglegt amstur

Þar sem enginn virðist sýna neinn áhuga á páskasamkeppninni, þá er ég ekkert að setja inn heimilisfangið mitt. Það verður því víst ekkert páskaegg í ár. Ég mun líkleast eyða páskunum í Wroslaw með fjölskyldunni hans Piotreks og honum auðvitað. Með góðfúslegu leyfi kærustunnar. Foreldrar hans voru víst ferlega svekkt þegar ég kom ekki seinast, og það verður gaman að prófa að upplifa pólska páska. Samkvæmt hefðinni fylgir þeim mikil vodkadrykkja, sem ég viðurkenni að mér er alveg sama um :)
Annars er lífið frekar tilbreytingarlítið þessa dagana, bara skóli og stöku barrölt, eins og vanalega. Í gær í Folklore kúrsinum mínum vorum við í leikskólastemmingunni að föndra hefðbundið pólskt páskaföndur. Gaman, gaman :D Svo ótrúlega fínn kúrs, erum alltaf bara í einhverju flippi að dansa pólska þjóðdansa eða syngja. Rosa fjör. Svo er ég líka í leikhúskúrsi. Setjum upp einhverja nútímaútgáfu af Pan Twardowski sem er svona Sæmundur Fróði pólverja. Einhverja hluta vegna fannst kennaranum að ég ætti að leika djöfullinn í líki nemanda. Eitthvað út af dökku yfirbragði mínu. Mér fannst það frekar fyndið, þó ég hefði verið alveg sátt við að leika bara ský eða tré.

Saturday, March 08, 2008

Páskasamkeppnin 2008!!!

Partý heima hjá mér í kvöld, öllum boðið!
Annars ætla ég að efna til samkeppni, allir geta tekið þátt.
Keppnin er svona: Þú kaupir páskaegg handa mér og sendir til mín. Sá sem sendir besta eggið vinnur. Vinningshafinn er BESTUR Í HEIMI og fær 3ja rétta máltíð matreiddri af mér þegar ég kem heim í sumar. Gæti ekki verið betra. Heimilisfangið kemur síðar þar sem ég veit ekki alveg hvar ég á heima. Ekki vera feimin við að taka þátt!

Saturday, March 01, 2008

change of plans

Jæja, endaði aldrei með því að fara til Wroslaws. Hlakkaði rosalega til, en eins fáránlegt og það er, þá vildi kærasta Piotreks ekki að ég kæmi. Mjög heimskulegt, líka þar sem við búum saman. En þar sem mig langaði rosalega að fara í stutt ferðalag, þá fór ég með Miriu og vinkonu hennar til Zakopane. Sá ekki eftir því, því að þetta var rosa góð ferð. Við vorum allar þunnar eftir fimmtudagskvöldið, en ég verð að segja að fjallaloftið og nóg af oscypki sé góð lækning við þynnkunni. Vinkona Miriu er frá Englandi og hefur aldrei farið upp í fjöll áður, þannig að þetta var ótrúlega sérstakt fyrir hana. Fórum með svona lyftu upp í eitt fjallið, og vá, hvað þetta var fallegt! Hún hafði heldur aldrei verið í miklum snjó, þannig að hún gleymir þessari ferð ekki brátt.
Allavega, partýið á fimmtudaginn hjá Miriu, var rosa fínt. Margir af nýju krökkunum úr skólanum komu líka og mér leist bara vel á þau...eða sum þeirra. Eftir nokkur vodkaglös á ég talsvert auðveldara með að tala á pólsku og ég átti í heilu samræðunum við fólk. Ekki slæmt það. Finn strax að ég hafði gott af því að fara í erfiðari bekk, því ég þarf að æfa mig meira, þannig að þetta virkaði eins og spark í rassinn á mér. Er orðin talsvert sleypari að tala bara á einni viku :)
web page visitor counters
Dell Coupons
eXTReMe Tracker