Tuesday, March 27, 2007

tannsasögur

Ég fór í endajaxlatökuna í gær og ég fékk að eiga tönnina! Jeiii...reyndar var bara önnur tönnin tekin, en hin verður tekin á mánudaginn. Líður bara vel og stóð mig eins og hetja í stólnum. Fannst reyndar bara pínku gaman á tímabili, því hann var með svona stóra töng og var að jugga tönninni til og frá og ég gat ekki annað en hugsað að ég hefði viljað að vera gera þetta við einhvern annan. En næsta skipti verður víst verra, því þá þarf að skera í tannholdið og fræsa beinið sem hljómar ekkert sérlega vel. Þá verð ég líka aum í marga daga á eftir.

Annars fór ég á Kentucky með Stine og tannsavinkonum hennar áðan. Að sjálfsögðu heyrir maður skemmtilegar sögur úr tannlæknalífinu og var ein stelpan ekki í góðu skapi. Málið er það, að hún hafði verið að vinna í þrjá daga að gullkrónu fyrir einn sjúklinginn sinn. Svo í dag þegar hún ætlaði að fara að setja hana í manninn, þá gleypir hann óvart krónuna. Hún sér því þriggja daga vinnu og ja, dýra gullkrónu fara ofan í aumingja manninn. En kennararnir eru víst ýmsu vanir og hafa lent í svipuðu. Því er maðurínn núna heima að bíða eftir að krónan skili sér út með kúknum, og svo fer krónan í dauðhreinsun og verður aftur sett upp í hann. Já, ég ætla að passa það að lenda ekki í þessu, ef ég þarf einhvern tíman að fá krónu :/

Monday, March 26, 2007

the selfish shellfish

Ég hló mikið að sjálfri mér þegar ég kom með þennan brandara við morgunverðaborðið. Hvað get ég sagt, I´m easily amused!

shit, ég er að fara í endajaxlatöku eftir 2 tíma...ekki laust við að mér kvíði fyrir.

Sunday, March 25, 2007

fjaðrir

Dagar mínir eru fullskipaðir þessa dagana. Á föstudaginn fór ég í afmæli til Sigursteins í arkitektúr, og var það alveg stórskemmtilegt. Svo langt síðan ég hef farið í afmæli, var búin að gleyma að maður fær pakka, sem gerir það að verkum að hugsanlega held ég upp á afmælið mitt þetta árið ;). En föstudagskvöldið var afskaplega skemmtilegt og kem ég ekki heim fyrr en undir morgun. Gærdagurinn fór að mestu í þynnku og alveg gífurlega mikinn hausverk, þannig að kvöldið var nú bara rólegt og fór snemma í rúmið. Enda þurfti ég að vakna snemma í morgun til að gera ritgerð um fjaðrir í tísku. Segi ykkur að það er ekki eins auðvelt og það hljómar, mjög erfitt að finna heimildir um þetta efni. Líka erfitt því maður missir sig í að skoða myndir af Belle Epoque og Flappers sem eru ótrúlega skemmtileg tímabil tískulega séð. Fyrir þá sem ekki vita, er Belle Epoque tímabilið frá upphafi 20.aldarinnar og fram á fyrri heimstyrjöld. Þetta er eitt versta tímabil fyrir konuna tískulega séð, því hún var neydd til að vera í korseletti sem gerði mittið örmjótt og fetti á henni bakið. Svo var hún með stóran hatt og var oft stífing í kraganum á blússunni hennar til að halda uppi á henni höfðinu. En fjaðrir voru mikið notaðar á þeim tíma og var næstum því búið að útrýma strútsstofninum. FLappers er nafnið á ungum konum in the 1920s, sem er held ég eitt flottasta tímabil tískulega séð sem ég veit um. Ungar ógiftar konur ákváðu að losa sig við korselettið og klæðast kjólum sem voru miklu lausari í sér. Þær lifðu fyrir hvern dag fyrir sig og fóru út að dansa á hverju kvöldi. Kvennahreyfingin er að koma upp á þessum tíma og konan hafði talsvert meira frelsi en hafði áður tíðkast. Tví-og samkynhneigð þótti ekkert tiltökumál, konur byrjuðu að reykja og drekka og klipptu hárið stutt. Manni finnst skrítið hvernig þetta fór allt aftur á bak aftur. En fjaðrir voru mikið í tísku þarna líka.

Sunday, March 18, 2007

enn ein helgin

Það gerðist nú ekkert rosalega mikið um helgina. Fór á Sirkus á föstudaginn og á Prikið í gær. Bæði kvöldin voru full af dansi, full af fólki og bara full. Annars fór ég í Krónuna í gær, búðina sem er við JL húsið. Held að þeir séu í smá starfsmannakrísu þar. Allir strákarnir sem unnu á kössunum voru ca 12-13 ára. Nú haldiði að ég sé að ýkja. En nei, þegar strákar eru lágvaxnari en ég( sem er 157cm) þá eru þeir ekki búnir að fermast. Þetta voru börn. Er ekki frá því að strákurinn sem ég afgreiddi hafi verið með smá hor...

Thursday, March 15, 2007

Langur dagur

Í gærkvöldi átti ég erfitt með að sofna. Ástæðan er sú að ég vissi að daginn eftir(sem sé í dag)væri ég að fara til tannlæknis í fyrsta skiptið í 10 ár, að fá einkunnina mína fyrir BA ritgerðina og svo fyrsti dagurinn í nýrri vinnu.

Stine tók mig í skoðun í morgun og var útlitið alls ekkert svo slæmt. Vegna mikils dálætis míns af kóladrykkjum þá bjóst ég við hiroshima í munninum á mér, en nei, það þarf ekki að rótafylla neitt. Aðeins pínkuholur sem þarf að laga og svo taka tvo endajaxla.

Eftir það fór ég upp í skóla þar sem ég fékk BA ritgerðina mína til baka. Ég fékk nú ekki nema 7 fyrir hana, en er samt ágætlega sátt. Fékk nokkuð góða umsögn, en gallinn var að ég vitnaði ekki nógu oft í heimildir.

Svo var fyrsti dagurinn minn í vinnunni. Var orðin bara nokkuð riðguð í afgreiðslustörfunum, en ég hef ekki unnið við afgreiðslu í þrjú ár. En mér líst bara nokkuð vel á þetta og ég held að Penninn í Austurstræti sé staðurinn þar sem allir koma á, því ég rakst á 5 manns sem ég þekki.

Endaði svo daginn með því að kíkja í heimsókn til mömmu gömlu, en hún varð 63 ára í dag. En mér líður dáldið eins og ég sé 63 ára í augnablikinu, enda drulluþreytt eftir langan dag, þannig að ég kveð bara að sinni.

Wednesday, March 14, 2007

pennipenn

Ég er komin með vinnu með skólanum. Byrja á morgun í Pennanum austurstræti. Held það verði bara fínt. Verð að vinna þrisvar í viku frá 3-7. Svo er plús að ég fái 25% afslátt af bókum, kemur sér vel hvað varðar áramótaheitið mitt ;)
Annars er stór dagur á morgun. Er með dáldinn hnút í maganum. Á að fá að vita hvaða einkunn ég fékk fyrir BA ritgerðina mína. Er voðalega hrædd um að mér hafi ekkert gengið of vel, að þetta sé ekki nógu fræðilegt hjá mér. Kemur í ljós. Veit þó að ég náði, því að þeir sem náðu ekki hafa þegar fengið að vita það. En það væri svekkjandi að fá undir 7 fyrir ritgerð sem maður hefur unnið svona lengi að. Jæja, kemur allt í ljós á morgun og hver sem einkunnin er þá er það búið og gert. Annars ætti ég að fara að sofa. Þarf að vakna snemma í fyrramálið. Stine ætlar að taka myndir af tönnunum mínum og athuga hvort þær séu mjög skemmdar. Kosturinn við að hafa tannlæknanema á heimilinu ;)

Monday, March 12, 2007

enn og aftur eurovision

Sá myndbandið fyrir framlag okkar Íslendinga í Eurovision áðan. Hmm, lýst nú ekkert rosalega vel á það. Minnti mig eiginlega bara á Evanesance-myndband eða eitthvað álíka vælurokksdrama. Þjáður söngvari í fögru landslagi. Ísland lítur þó afskaplega vel út í þessu blessaða videoi, kannski við fáum stig frá náttúruunnendum.

Sunday, March 11, 2007

ævintýri

Ein bekkjarsystir mín sagði mér ótrúlega skemmtilega útgáfu af Öskubusku um daginn. Öskubuskusögur eru til út um allan heim og í Frakklandi voru birtar tvær útgáfur af sögunni á 18.öld. Önnur útgáfan var mjög hefðbundin og eins og við eigum að venjast. Hin útgáfan er aftur á móti talsvert öðruvísi.

Þar segir af Öskubusku sem missti skóinn sinn eftir dansleikinn og prinsinn finnur hann. En í þessari útgáfu er prinsinn með skó-fetish og er hann alveg heillaður af þessum littla og netta skó. Í marga daga á eftir var prinsinn heillaður af skónum og hugsaði ekki um neitt annað. Konungshjónin urðu mjög áhyggjufull yfir þessari undarlegu hegðan arftakans, og kölluðu á lækni. Læknirinn gat nú ekki gefið mikla skýringu á þessu og sagði því að prinsinn væri ástfanginn. Því fara konungshjónin í leit að eiganda skósins til að leysa þetta vandræðamál. Finna þau fyrir Öskubusku og koma á brúðkaupi. Prinsinum var nokkuð sama um þetta, enda myndi hann með giftingunni tryggja sér fullan skáp af nettum skóm ævilangt. The End.

Verð að segja að mér finnst þessi útgáfa í rauninni talsvert raunverulegri. En nóg um Öskubusku. Ekkert markvert að gerast hjá mér svosum, bara skóli og stöku djamm. Fór í gær í mat hjá Rögnu, partý hjá Birnu og svo á Kaffibarinn. Hitti því miður ekki Leonardo Di Caprio, en svona er lífið. Ágætis kvöld samt sem áður.

Keypti hönnunarbók Marsmánaðar í dag. Fyrir þá sem ekki vita, þá er áramótaheitið mitt að kaupa eina hönnunarbók eða flotta bók í hverjum mánuði. Í þetta skipti skellti ég mér á bókamarkaðinn með Hebba og keypti tvær fallega myndskreyttar bækur. Abarat og Kóralínu. Báðar skemmtileg ævintýri með flottum myndum.



Wednesday, March 07, 2007

Bubbles

Flestir leikjaunnendur ættu að þekkja leikinn Bubbles, ef ekki, þá er þetta vinsælasti leikurinn á Leikjaneti. Leikurinn er afskaplega einfaldur en ávinabindandi, og snýst um það að sprengja kúlur. Fyrir einu og hálfu ári síðan varð ég ákaflega háð þessum leik og eyddi miklum tíma í að spila hann. Svo mikil áhrif hafði leikurinn á mig, að það kom jafnvel fram í því verki sem ég var að vinna að á þeim tíma. Það var að vísu algjörlega óafvitandi, en fyndið. Eftir það ákvað ég að kúpla mig frá þessum leik. Því miður hef ég undanfarna daga farið að spila leikinn aftur. Varð ég dáldið skelkuð, þegar ég uppgötvaði að ég væri "dottin í Bubbles" aftur. Sá fyrir mér að lokaverkefnið mitt yrði undir miklum innblæstri frá Bubbles, sem er dáldið hallærislegt. En svo fattaði ég áðan, að það er hreint ekki eins slæmt og ég hélt. Því þetta er svo einfaldur leikur, að manni gefst mikill tími í að hugsa á meðan. Núna er ég meðvituð um áhrifin sem þetta gæti haft á verkin mín, svo að ég get forðast það. En annars virkar leikurinn nánast eins og hugleiðsla á mig. Svipað og að skera grænmeti. Ef að ég er þreytt og þarf að koma lag á hugsanir mínar, þá fer ég og elda eitthvað með miklu grænmeti í, helst grænmetislasagne eða eitthvað. Því að það að skera grænmeti krefst nákvæmlega engrar hugsunar, eins og Bubbles. Læt fylgja með til gamans mynd af frímerkinu sem ég var að hanna þegar ég var alvarlega háð bubbles. Vil samt taka fram að hvíti ramminn á ekki að vera :)

Tuesday, March 06, 2007

næsti áfangi

Kynnti hugmyndir mína að lokaverkefni fyrir Atla og Goddi, kennurunum mínum í dag. Fékk ágætis viðtökur, þó ég þyrfti að snúa dálítið aftur til upprunalegrar hugmyndar minnar. En það er allt í lagi. Hugsa að þetta verði skemmtilegt, þó að ég sé pínku hrædd um að þetta verði complete failure. Smá áhyggjukast í dag. Eitthvað svo stórt að ákveða lokaverkefnið sitt. Úff, hvað þá að fara að byrja að búa það til, sem ég geri á næstunni. Framtíðin virðist eitthvað svo óhugnalega nærri og full af ákvörðunum. Ég veit að ég er dramatísk, en þetta er bara einn af þessum dögum. Jæja, ætla að fara með Stine í sundhöllina og hanga í heita pottinum. Ekkert betra til að koma lagi á hugsanir sínar.

Saturday, March 03, 2007

fjórði "meðleigjandinn"

Hafði hugsað mér að baka í dag, en væmnisskapurinn á eldhússvæðinu er of mikill fyrir minn smekk. Jeppe og kærastan hans sitja í sama anskotans sætinu og spila væmin lög á píanó. Helst ekki lengi við í kringum svoleiðis fólk, þannig að ég lokaði mig af inn í herbergi. Annars er ég orðin ansi þreytt á að hafa kærustuna hans Jeppe alltaf hérna. Hún hangir hérna þegar hann er ekki heima, og í gær var hún meira að segja með vinkonu sína í heimsókn. Langar helst að segja henni að drullast heim til sín eða þá allavega að fara að borga leigu, en ég get það víst ekki. Finnst hún ekkert sérlega skemmtileg, voðalega ljúf og góð stelpa en óhemju óspennandi að tala við og væmin.Vona að þau hætti saman bráðum. Er ég vond að hugsa svona...

Thursday, March 01, 2007

rúmið mitt og dularfulla emailið

Fyndið, var að skoða emailin mín áðan, og einhverra hluta vegna er eitt emailið frá skólanum sent 8.1.1970!!! Hversu kúl er það, ætla ALDREI að henda þessu emaili. Talandi um fyndið, þá fór ég með Stine og vinkonum hennar á fyrsta kvöldið af fyndnasta manni Íslands. Það var mjög misfyndið, en ég tók eftir því að það virðist trend hjá keppendum að tala um kvenfólk og kynlíf. Eða er það ekkert trend? Veit það ekki, er ekki inn í grínbransanum. Verður dáldið þreytt til lengdar, þó að sumir kæmu með góða punkta. En skemmtilegast var þó þegar alvöru starfandi grínistarnir komu með eitthvað sniðugt á milli atriða keppenda. Svona til að láta keppendurnar líta illa út. En þetta var ágætis afþreying, þó að hún Stine skyldi ekki allt greyið, enda ekki velsjóuð í íslenskunni. Já, annars eru dagarnir bara nokkuð rólegir, er ennþá að fagna endurfundunum við rúmið mitt. Góðir tímar þar. Þeir sem segja að það sé tímasóun að sofa, ættu einfaldlega að fá sér betra rúm. Skemmtum okkur alveg konunglega, ég og rúmið mitt. Eða þá að þetta fólk ætti að fá sér annan heila, allavega er svaka stuð hjá mér og heilanum mínum í góða rúminu mínu.
web page visitor counters
Dell Coupons
eXTReMe Tracker