Friday, June 30, 2006

búinn að bóka

jább, ég kem heim 25.júlí, legg af stað héðan kl 13:00 sem ég verð að segja að er bara ágætis tími til að fljúga. Nú er bara spurning hvort Aðalbjörg nái að halda í sér börnunum þar til eftir að ég kem heim, langar að sjá hana með risabumbu :)

Tuesday, June 27, 2006

Hebbi farinn

jább, fylgdi Hebba út á lestarstöð áðan, gat ekki fylgt honum alla leið á flugvöllinn, en passaði að hann færi í rétta lest. Gengur ekki að láta stóra bróðir villast í henni stóru Berlín.
Er núna bara í skólanum að bíða eftir hjálp við InDesign skjal. Erum að skila pödduhryllingsverkefninu. Vorum að fá nýtt verkefni sem ég held bara að verði skemmtilegt. Eigum að taka myndir af "hidden creatures" svona hlutir sem líta út fyrir að vera með andlit, og teikna þá svo upp. Sáum svona verk eftir aðra nemendur og það var mjög fyndið. Er líka þannig manneskja að mér finnst allir hlutir vera með andlit, þannig að ég held ég fari létt með þetta.
Í gær fórum við Hebbi að skoða afganginn á Múrnum, vorum fyrst vitlausum megin við ánna, þannig að við fundum hann ekki strax, en fundum hann þó að lokum. Mikið labb semsagt. Jæja, held ég fari heim og taki myndir. Fer svo aftur í skólann kl 4, bless í bili.

Sunday, June 25, 2006

dauðþreytt og sólbrunnin

já, seinustu dagar hafa verið strembnir, en ég held að ég ætti að fá verðlaun fyrir að vera besti touristguide í heimi, eða allavega í berlín í augnablikinu. Í gær fórum við Hebbi að skoða Berliner Dom, eða berlínsku dómkirkjuna ;). Hún er ótrúlega stór og flott og geðveik, snérist næstum til kristni, svo flott var hún ;), set inn myndir seinna. Vá, ég held að heilinn á mér hafi soðist í hitanum, man allt í einu ekki hvað við gerðum meira í gær, jú horfðum á tvo seinni hálfleiki á hm. Það ótrúlega er að ég skemmti mér vel. Held ég sé að verða eitthvað lasin, er að smitast af hm-veirunni, enda erfitt að vera heilbrigður innan um þetta æði. Allavega, í dag vöknuðum við snemma og fórum í siglingu á bát á ánni Spree en hún liggur í gegnum berlín. Mjög gaman. Svo fórum við í Mauer Park, þar sem Hebbi keypti ekki neitt, en fannst mjög gaman, en ég aftur á móti keypti Polaroid myndavél, hálsmen, ótrúlega flotta bók um kvikmyndagerð frá 1968 og bolla, allt fyrir 10 evrur, það besta var að samtals átti þetta allt að kosta 30 evrur, en vegna prútthæfileika minna þá sparaði ég 20 evrur :D, geri aðrir betur! Ætluðum að fara að skoða Múrinn í kvöld, en held við gerum það annað kvöld í staðinn, því ég hef alveg verið að hunsa lærdóminn, reyndar ætti ég að vera að læra núna, en er strand vegna tækniörðuleika. Finn út úr ´því í skólanum á morgun. Jæja, segi þetta nóg í bili, blessbless, já nennir einhver að kommenta, finnst eins og enginn lesi bloggið mitt lengur :(

Thursday, June 22, 2006

Hebbi kominn í heimsókn.

Afsakið bloggleysið, en það er búið að vera afskaplega mikið að gera hjá mér seinustu daga.
Á þriðjudaginn byrjaði dagurinn þannig að ég fór með illustration bekknum mínum að skoða þar sem frímerkin og peningarnir eru prentaðir. Þar var mjög mikil öryggisgæsla og þurftum við að skilja veskin okkar og vegabréf eftir í afgreiðslunni. Þetta var mjög áhugavert, þó ég viðurkenni að ég skyldi ekkert af því sem leiðsögumaðurinn sagði, en ég fattaði þó hvernig tækin virkuðu. Var samt pínku svekt að við fengum bara að sjá frímerkjaprentunina en ekki peningaprentunina. Var að vonast eftir að við fengjum svona gjöf eins og maður fær alltaf í svona heimsóknum. HEfði alveg viljað fá smá pening ferskan úr verksmiðjunni, en ég var víst of bjartsýn. Fengum ekki einu sinni að taka bréf úr ruslinu. Sá ótrúlega flottan pappír í ruslagámnum,´langaði að nota hann í eitthvað, en það mátti ekki.
Eftir heimsóknina í verksmiðjuna fór ég og sótti Hebba á flugvöllinn. Gerðum ekkert mikið fyrsta daginn, en ég labbaði með hann "út um allt" og hann fékk að upplifa geðveikina í kringum fótboltann, þar sem þýskaland var að keppa og vann. Það þýddi auðvitað mikil fagnaðarlæti, sem því miður heyrðust inn um svefnherbergisgluggann minn um nóttina.
Á miðvikudaginn fór ég svo í þýskukennslu sem er alltaf skemmtileg. Erum alltaf svo fá í tímunum núorðið, við Lauren vorum bara einar seinast. Þetta er bara orðin fínasta einkakennsla, ekki amarlegt. Fór svo með Hebba í smá verslunarleiðangur og svo fórum við á nokkra tónleika, því það var "fet de la musica" sem þýðir að það er glás af hljómsveitum að spila úti allstaðar, og allt frítt að sjálfsögðu. Fórum fyrst á tónleika með írskri, sígauna grúv hljómsveit sem heitir Trubadore, mjög skemmtileg og hress hljómsveit sem hægt er að finna á Myspace ;). Um kvöldið sáum við svo ótrúlega skemmtilega hljómsveit, sem ég veit ekki alveg hvað heitir, en gengur undir skilgreiningunni "junkpop". ÞEtta var hópur af ungum tónlistarmönnum sem voru bara eitthvaða að impróvæsa á staðnum. Einhver að rappa og þetta passaði einhvern veginn ekkert saman en var samt ótrúlega flott. Svo voru þau alltaf að skipta út trommuleikara eða bæta við gítarleikara, þannig að tónlistin breyttist stanslaust. Ótrúleg stemming. Á tímabili sá svo 4 ára stelpa um söngin og ég get alveg sagt að hún var að meika það. Við hefðum bara viljað vera með vídjókameru til að taka þetta upp, hópurinn þarna var svo ótrúlega fjölbreyttur og stemmingin frábær.
Í dag fórum við svo á Egypska safnið. Það var bara mjög skemmtileg. Hef aldrei farið á þannig safn, en auðvitað langað það geðveikt. Í bónus fékk maður svo líka að fara og skoða gríska og rómverska fornmuni, sem var líka gaman. Fórum svo að sjá Checkpoint Charlie, sem er náttúrulega algjör nauðsyn fyrir hvern túrista í Berlín, en fyrir þá sem ekki vita, þá er þetta hliðið sem var á múrnum á milli austurs og vesturs. Jább, held þá bara að dagurinn sé nokkuð mikið kominn, nema hvað að það virðist sem við séum að fara á tónleika með Andi. JÆja, bæbæ

Sunday, June 18, 2006

mjöööög fyndið

mæli með því að horfa á allt vídjóið


As seen on Break.com

17 júní í gær

TIl hamningju með gærdaginn Íslendingar góðir. Og hvernig heldur maður svo upp á þjóðhátíðardaginn í Berlín, jú, maður fer í grillveislu hjá sendiherrahjónunum.
Sendiherrabústaðurinn er staðsettur lengst í burtu, í Grunewald í fallegu hverfi sem inniheldur mörg mjög rómantísk og falleg hús. En það fór ekki á milli mála, hvar íslenski bústaðurinn var, því allt í einu var maður staddur niðrá Höfðatúni. Greinilega sami gaurinn sem hefur hannað þetta hús sem samanstóð af dökkum steini, gleri og parketi á veggjunum, oooooohhhhhhjjjjjjjjjjj. Alveg fer þessi stíll í mínar fínustu taugar. Bara aumingja fólkið að þurfa að búa þarna inni. Garðurinn var mjög stór, en allt umhverfið leit út eins og maður væri inn í þrívíddarforriti, maður stökk bara beint inn í renderinguna. Mjög fyndið. ALlavega, við fengum lambakjöt, sem er auðvitað það sem skiptir mestu máli :)Svo voru víst íslenskar pulsur líka á boðstólnum, en þær voru ekki grillaðar þannig að ég lét þær vera. Mjög fyndið, því auðvitað voru svona þjónar í svarthvítum fötum og einn þeirra var ótrúlega snobbbaður í útliti eitthvað. Svo er hann að labba með svona silfurbakka fullan af PULSUBRAUÐUM! Alveg kódak móment, vildi að ég hefði verið með myndavél.
Eftir húllumhæið þá fór ég með Helgu og Huldu að drekka vín og svo ætluðum við í eitthvað partí sem vinur hennar var í, sem var í gámi á einhverju túni. En hann var farinn áður en við náðum að koma, þannig að eftir að hafa labbað endalaust mikið, þá hættum við við að fara og löbbuðum endalaust mikið til að fara niðrí Ballhaus MItte. EN þegar við loksins komum þangað, þá var ég eiginlega dottin úr öllu stuði sem batnaði ekki við að vera staðsett´á mesta túristabælinu þá stundina. Þannig að ég fór bara heim, en klukkan var þá orðin 3, þannig að það var ágætt. Annars ágætur 17.júní, verð ég að segja.

Friday, June 16, 2006

Bókaleit í mollunni...

Já, í dag var bara molla. Það er búið að vera svo heitt síðustu daga, eða í kringum 30 gráðurnar. Verð að viðurkenna að ég er bara ekki gerð fyrir svona hita. Nóg fyrir mig 20 gráður, í mesta lagi. Er með svona "central heating" sem er bara of hátt stillt svo ekki sé bætt við auka utanaðkomandi hita.
Annars er ekkert merkilegt að skeð. ER bara með þessa hrykalegu þörf til að lesa eitthvað skemmtilegt, en þar sem ég er ekki með neinar bækur hérna, þá fór ég í leiðangur í gær. Byrjaði á háskólabókasafninu, sem er riiiiisastórt, en lítur út eins og fangelsið í Prison break. Maður má ekki fara með töskurnar sínar inn, heldur verður að setja hana í skáp í andyrrinu, gengur svo meira að segja í gegnum svona hlið eins og í búðum, rosalega paranoid allt saman. Allavega, þar voru bara einhverjar fræðibækur, sem ég er ekki alveg að nenna að lesa í augnablikinu, eða sjaldan :/, þannig að ég hætti við það og fór í staðinn á Stadt bibliotekið sem er í hryllingsbælinu Potzdamer Platz. Þar þyrfti ég að vera með vegabréfið mitt og registration formið sem sýnir heimilifangið mitt(en ég er ekki ennþá búin að því, og það tekur því einhvern veginn ekki núna), þannig að ég get ekki tekið bækur þar. Hundfúl í 30 stiga hita og með brjálaða sænska fótboltaáhugamenn í lestinni, fór ég í næstu bókabúð og keypti mér bók. Og, já hvaða bók keypti ég svo. Ég lúðinnn, keypti mér nýju Eragon bókina, sem var á góðum prís og nógu þykk til að duga mér í einhverja daga ef ég spara hana. Hún er mjög skemmtileg, þannig að ég er voða glöð :)

Wednesday, June 14, 2006

Bless Hans Dieter

Já, nú er það sennilega að eilifu búið, gott samband mitt og kóngulónnar Hans Dieter. Það byrjaði illa, þar sem ég fékk taugaáfall þegar ég uppgötvaði þessa risastóru kónguló á baðherberginu okkar, en þar sem hann var bara í einu horni, kjur og angraði engan, þá varð hann að kærum vini sem gott var að spjalla við þegar maður fór á klóstið.
Hans Dieter átti tvö heimili í baðherberginu, tvö horn sem hann fór á milli. Hann var ánægður þar og dafnaði vel. En undanfarið hefur hann orðið gráðugri og í morgun var hann kominn með enn eitt hornið. Í kvöld þegar við Andi komum heim, þá uppgötvuðum við að Hans Dieter var horfinn. Við leituðum út um allt en fundum hann ekki. En áðan þá fundum við hann aftur, hann var við hliðina á klóstinu. Hann var ekki einn, hann var með kærasta, því þegar við sáum stærðarmuninn á þeim, þá uppgötvuðum við að Hans Dieter er kona.
En hún/hann var orðin of frekur. Vefurinn hans er í slykjum út um allt loft, og nú ætlaði hann að byrja á vaskinum, og sennilega að ríða hinni kóngulónni og eignast lítil kóngulóarbörn. Þar sem við Andi erum ekki alveg reiðubúnar í það, þá ákváðum við að kveðja Hans Dieter og maka hans/hennar. Þau búa núna út á svölum, spurning hversu lengi. Kemur í ljós hvort þau búi þar eða haldi út í hinn stóra heim, en hvernig sem fer, þá vona ég að hann verði hamingjusamur og njóti lífsins. Bless Hans Dieter...

Monday, June 12, 2006

framtíðaráform

Þegar maður er svona í öðru landi að læra, þá get ég ekki annað en farið að pæla í hvar ég ætti að taka masterinn. Gott væri að taka það í enskumælandi landi, gott upp á að skilja eitthvað :/, er mjög hrifin af Berlín, en maður þarf helst að kunna þýsku í skólanum og ég fíla námið hérna ekkert svakalega. Er búin að vera mikið að skoða Pólsk plaköt, og ég er ekki frá því að ég taki stefnuna á Krakow. Plakatamenningin í Póllandi er svo rosalega mikil, t.d þá endurhanna þeir alltaf öll kvikmyndaplaköt, svipað og er gert við bókakápur í öðrum löndum. Í skólanum er plakat ekki bara plakat, heldur er það kallað "poster arts", taka alveg pósterinn á annað stig. Já, líst bara vel á pólland. Set hér til hliðar link á pólsk plaköt.

Saturday, June 10, 2006

myndir

Setti inn myndir frá Sauen. Myndirnar eru allar á sama stað, linkur til hliðar.

þúsundsþjalasmiðir

Hm er byrjað. Í gær voru Þýskaland og Kosta Ríka að keppa, held að Þýskaland hafi unnið, allavega heyrði ég þrisvar hrópa veeeiiiiii og skotið upp rakettum. Eins og sést er ég ekekrt alveg inn í þessu. Við Helga áttum góðan dag í staðinn, héngum í MauerPark og svona, en á leiðinni heim sáum við nokkur skemmtileg fótboltapartí þar sem fólk hafði dregið sófann sinn og sjónvarpið út á gangstétt og allir sátu saman að fylgjast með leiknum þar. Lá við að vildi horfa, örugglega stemmming.
Annars fór ég á fimmtudaginn á "live grafíska hönnun" á klúbb sem heitir M12. Það virkar þannig að grafískur hönnuður er fenginn til að hanna flyer fyrir manneskjuna sem hannar næsta flyer og svo koll af kolli. Hefði sennilega getað troðið mér inn í þetta prógramm hefði ég ekki verið of sein, þar sem þetta er bara einu sinni í mánuðio og búið að finna manneskjuna fyrir næst. Allavega, maður getur fylgst með því sem hönnuðurinn gerir á stórum skjá og á fimmtudaginn var Oliver vinur Andi að hanna. Verst er að hann er ekki grafískur hönnuður heldur þrívíddarhönnuður og þó það væri mjög svo heillandi að sjá hann vinna í þrívíddarforritinu, þá dó ég næstum þegar hann fór að setja upp flyerana, það var svoooo hrykalegt. Hann var með einhverja tvo hausa og letrið var svona oldschool tölvuletur, en hann fór svo illa með það og allt var svo hrykalegt. Gerði held ég flest byrjendamistök sem hægt var að gera. Tjáði þessar áhyggjur mínar við Gösta sem er líka grafískur hönnuður og hann sagði mér að ég ætti bara að fara og spjalla við Oliver. Á endanum gerði ég það, og hjálpaði Oliver með einn flyer. Útkoman var ekki endilega eitthvað sem ég myndi gera sjálf en hún var þó talsvert betri en hinir 3 sem hann gerði :)
Annars finnst mér að við Helga ættum hrós skilið fyrir afrekið sem við unnum í gærkveldi. Eftir að hafa leitað að tappatogarar í hálftíma án árangurs, þá náðum við að opna vínflösku með skrúfu, skrúfjárni og töng! Geri aðrir betur.

Wednesday, June 07, 2006

afslöppun

afslöppun hjá mér, en ekki hjá bekknum mínum. Það góða við Lhí er að maður venst því að vinna með deadline, 2-3 vikur í hvert verkefni. Þannig er það yfirleitt ekki í Udk, og því er bekkurinn minn og kennarinn að fríka út af stressi yfir frímerki sem við erum að vinna fyrir keppni hjá þýska póstinum og höfum við 3 vikur. Ég er nú ekkert stressuð yfir þessu, en vá, var meira að segja auka tími í dag til að vinna að þessu, en ég og Lauren mættum ekki, enda vorum við í þýskukennslu. Nenntum heldur ekki að eyða þessum sólskynsríka degi inni með stressuðum þjóðverjum. Skil bara ekki hvernig fólk ætlar að fúnkera í hönnunarheiminum þar sem hlutirnir þurfa að vera tilbúnir í gær, ef þeir læra þetta ekki strax í skólanum.
Allavega, við Andi fórum í gærkveldi á Randlager þar sem var hryllingsmyndakvöld í tilefni af 6.6.6. Myndin sem var sýnd heitir "the hills have eyes" og er frá 1975 eða eitthvað. Algjör B-mynd og var alls ekki hryllileg heldur óendanlega fyndin. Skemmti mér alveg konunglega. Jæja, ætla að njóta góða veðrisins, spurning hvort maður skellir sér í Swing í kvöld, kemur í ljós...

Tuesday, June 06, 2006

haha

ég er kannski lúði, en mér finnst þetta óendanlega fyndið
http://www.b2.is/?sida=tengill&id=170205

a madur ad vera hraeddur

i dag er 6.6.6.

Monday, June 05, 2006

Cirkuspartí og Dear Wendy

jább, fór í Cirkuspartíið hjá MIllu í bekknum mínum á laugardaginn. ÞEtta voru 3 íbúðir sem voru hlið við hlið í stigaganginum, þannig að það var nóg pláss og glás af fólki. Þetta var alveg stórskemmtilegt partí. Setti myndir inn hérna til hliðar. Við Andi fórum úr partíinu um 4 leitið og fórum þá á 8mm til að drekka Absint. Það er mjög gott, þó það sé kannski ekki alveg það sniðugasta sem maður gerir svona seint, en við komum heim upp úr 6. En þetta var góður endir á góðu kvöldi. Í gær fór ég svo skelþunn með Helgu á Carnival der Culturen. Risa karnival og allt of mikið af fólki, en ágætt að fara þó alls ekkert nauðsinlegt.
Í gærkvöldi ákvað ég að taka því rólega til tilbreytingar, þó það hefði verið freystandi að fara á White Trash, vitandi að það væri swingpartí, en ég held ég hefði ekki höndlað að fara 4ða kvöldið í röð út. Við Andi tókum því bara spólu í staðinn, Dear Wendy heitir hún. Nokkuð góð mynd, þó ég verði að segja að hún er ótrúlega skrítin en ógeðslega fyndin. Ég vissi ekkert um myndina áður en ég sá hana, og sagði við Andi eftir að hafa klárað hana að hún minnti mig dáldið á Dogville. Þá sagði hún mér að þetta væri Lars Von Trier mynd. Greinilega sterk höfundareinkenni þar á bænum eða ég ógeðslega klár að fatta það ;)

Saturday, June 03, 2006

moskítómatur

Ég er komin aftur í borgina, útúrstungin af moskítóflugum og nefið aumt eftir að klessa á glerhurð, that´s just me. En sveitin var fín. Sauen er...já, mjög lítið þorp eða bara ein gata réttara sagt. Skógur í kring og falleg náttúra. Húsið sem við vorum í var mjög flott, gamalt ríkrabónda setur með hreindýra hausa á veggjunum og hrikalega ljóta hreindýrahornaljósakrónu, mjög smekklegt :/
Annars var það svo gott að Wagenbreth kennarinn minn var veikur heima af bakverkjum þannig að hann kom ekki með, veit að þetta hljómar frekar illgjarnt, en þetta gerði dvöl mína talsvert ánægjulegri. Kennarinn frá Leipzig kenndi okkur bara í staðinn og hann er talsvert frjálslegri og leyfir manni meira að gera það sem maður vill, en þannig á það auðvitað að vera. Þurftum að búa til littla bók og í henni átti maður að nota náttúruna sem innblástur. Leipzig krakkarnir voru eitthvað mikið í sögugerð og gerðu flestir einhverjar skordýrateiknimyndasögur á meðan minn bekkur var allur í að gera mjög nákvæmar teikningar af blómum og skordýrum, svona útskýringarmyndir eins og er í svona blóma og skordýrabókum. En svo kem ég, óagaði íslendingurinn krassaði upp flugur með einni línu. En það var auðvitað ógeðslega flott ;) og ég ákvað að gera smá grín af þessu öllu saman og búa til bók sem heitir " Das kleine, extreme längweilige Buch über Insekten" eða á góðri íslensku " Litla og einstaklega leiðinlega bókin um Skordýr" eða kannski er það ekki góð íslenska? Allavega, og bókin verður með mjög þurrum og nákvæmum texta um ákveðin skordýr og hafa svo krassmynd af þeim við hliðina á. Þannig að þar sem ég get ekki teiknað þau nákvæmt, þá skrifa ég bara detailin. Mjög gott.
Já, fór svo í gær með Helgu á Singapore Sling tónleika, þar var margt um manninn og sennilega flestir Íslendingar. Tónleikarnir voru allt í lagi miðað við Singapore Sling, allt hljómaði nákvæmlega eins, en það var ágætt að horfa á þá, ekki ómyndarlegir menn þar á ferð.
En núna þarf ég að fara í búningaleit, er að fara í partí í kvöld þar sem þemað er Sirkus. Stelpa í bekknum mínum heldur partíið og það verður örugglega glens og gaman, tschüβ!
web page visitor counters
Dell Coupons
eXTReMe Tracker