Monday, April 10, 2006

hreingerningin mikla

Í dag komst ég að því hvernig fólkinu í "Allt í drasli" þáttunum líður. Já, ég o Helga lögðumst í hreingerningu á nýju bækistöð okkar á Triftstrasse. Og þvílík svínastía, ég dauðsé eftir því að hafa ekki tekið Fyrir og Eftir myndir, því jeminn hvað hún mamma hefði verið stolt af mér. Við tókum þetta svo í gegn, og núna er þetta bara hið fínasta speis, fyrir utan fíluna sem við erum að reyna að útrýma með opnum gluggum og ilmkertum. Þetta er ótrúlega fyndin íbúð, "úthlutað" er það orð sem helst kemur upp í hugann. Íbúðin er frá sovéttímanum, og því miður hefur hún líka hið klassíska sovéska klósett þar sem maður getur skoðað kúkinn áður en maður sturtar. Innréttingarnar eru afskaplega beisik og ekkert verið að leggja í óþarfa fagurfræði á þeim. En þetta er bara stemming, og dugar fínt þennan mánuð.
Fórum svo í Rúmfatalagerinn, já, þið sjáið rétt, Rúmfatalagerinn er líka í þýskalandi og gengur þar undir nafninu Danish belagen eða eitthvað álíka. Þurftum að fara dáldið langt að kaupa dýnurnar, og ég massaði algjörlega flutinginn á þeim, þar sem ég bar þær á hausnum eins og sönn afrísk kona á milli þess sem við fórum í þrjár lestir. Vöktum dáldið mikla athygli, tvær manneskjur stoppuðu okkur til að spurja hvar við hefðum keypt dínurnar og hvað þær kostuðu. Mjög skrítið, veit fólk ekki hvar á að fá dínu í Berlín eða hvað.
Annars er þýskan mín alveg að fara batnandi, skil stundum þegar fólk talar við mig, og er farin að geta tjáð mig í stikkorðum með misjöfnum árangri. Fór alveg á kostum í dag við það að reyna að spyrja um stórmarkað sem selur mat: " supermarket....essen....essen.....supermarket......já, gífurlegir málahæfileikar hérna. En konan virkilega skildi mig að lokum og við Helga fórum í stórmarkað, þar sem maður fær ekki einu sinni poka í endann, fólk virkilega kemur sjálft með poka. Allt mjög umhverfisvænt hérna, líka hell að henda rusli, allt flokkað. Meira að segja glerið er flokkað eftir lit. Kann ekki einu sinni að flokka ruslið svona vel, dríf mig bara geðveikt mikið og vona að enginn taki eftir mér. Jæja, þarf að fara að sofa, góða nótt...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home

web page visitor counters
Dell Coupons
eXTReMe Tracker