Thursday, November 20, 2008

á lífi

Já, ansi langt síðan ég skrifaði seinast. Ástæðan er að ég var bara að fá internet í nýju íbúðina mína fyrir 2 dögum síðan. Já, nýja íbúðin, verð að setja inn myndir bráðum. Þetta er alveg æðisleg íbúð og ég gæti ekki verið ánægðari. Vegna kreppunnar, þá neyðist ég til að deila herbergi með Miriu. Verð að segja að það gengur bara miklu betur heldur en ég vonaði. Náðum að skipta herberginu svo vel með tveimur skápum, þannig að við báðar fáum okkar pláss. Giles leigir svo annað herbergi í íbúðinni. Við erum með risastórt eldhús, um 20 fm og íbúðin er með húsgögnum og öllu. Allt nýuppgert og fallegt.
Lífið er annars bara ágætt, voða lítið gert þannig séð fyrir utan að læra og hangsa. Skólinn er ágætur, gæti verið skemmtilegri. Á dáldið erfitt með að kynnast fólkinu þar, eitthvað sem ég hef aldrei átt í vandræðum með. Kenni tungumálaörðuleikum um, get ekki talað nógu vel til að grípa inn í samræður, þannig að ég er bara þögul út í horni. LÚÐI! Annars Þá hef ég skemmtilegar og leiðinlegar fréttir. Hafði ekki efni á miða til Íslands um jólin, þannig að ég ætlaði að hanga hérna í Kraká með the grinch(giles) og einhverjum öðrum.En þá ákvað mamma Miriu að bjóða mér til þeirra um jólin í USA. Keypti bara handa mér miða! Verð því í New Jersey um jól og New York um áramót. Bara mánuður þangað til ég fer, hlakka ekkert smá til. Annars er Sölvi að koma í heimsókn til mín á laugardaginn þannig að það verður stuð. Skrifa meira seinna.

Sunday, October 05, 2008

Farin aftur :)

Eins og sjá má þá var sumarið fremur viðburðarsnautt, þar sem ég skrifaði bara eina færslu. En þar sem ég er nú komin aftur til Póllands, þá ákvað ég að skrifa nokkrar línur. Flaug sem sé til Berlínar 15.september og eyddi 9 dögum þar. Var með íbúð í láni hjá vinkonu minni mest allan tíman, sem var hreint út sagt frábært. Það var ofurnæs að hanga í Berlín. Stór partur af Kraká-vinum mínum búa í Berlín núna, þannig að það var mjög furðulegt að blanda saman Krakávinunum og Berlínarvinunum en samt fínt. Fór á tónleika með The Charlatans, sem var ótrúlega gaman. James er vinur söngvarans, og hann reddaði okkur miðunum. Fengum líka að hitta söngvarann, sem var úber næs gaur. Ég, James og Julien keyrðum svo 24. til Kraká. Það tekur ekki nema um 7 tíma, sem er talsvert betra heldur en lestin sem er 10 tíma. Það var mjög fyndið að fara yfir landamærin, þýska autobahnið er fullkomið, en um leið og maður kemur yfir til Póllands, þá líður manni eins og maður sé í þvottavél. Talandi um að finnast maður vera að yfirgefa siðmenninguna :)
Það var ótrúlega skrítið að koma aftur til Kraká, en vandist þó fljótt. Miria vinkona mín komst inn í Jagiellonski, þannig að hún býr í herberginu mínu með mér núna. Við og Giles vinur minn erum núna að leita að íbúð saman. Þrátt fyrir að ég elski herbergið mitt, þá er ég komin með ógeð af eldhúsinu. Agnieszka meðleigjandi er ekki sú hreinlegasta. Skólinn byrjar svo loksins á þriðjudaginn. Verð bara í skólanum á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, þannig að ég verð alltaf með langa helgi :) Gott ef mér skyldi detta í hug að skreppa í ferðalag. Verð að sjálfsögðu að vinna mikið sjálf, en mér líst rosalega vel á kúrsana mína. Verð mest í plakötum að sjálfsögðu, en svo tek ég líka tréristukúrs og ljósmyndun. Svo verð ég líka að taka listasögu. Kvíðir pínku fyrir því, en Stian vinur minn segir að þeir séu mjög mellow, og ég fái sennilegast að skrifa ritgerðina á ensku. Allavega, verð svo duglegri að skrifa aftur þegar eitthvað gerist :)

Saturday, June 28, 2008

komin til íslands

Kom til Íslands á miðnætti á fimmtudaginn eftir ansar hrakfarir. Flaug fyrst frá Kraká til Kaupmannahafnar, þaðan átti ég svo að taka flug til Íslands. Eeeen, hálvitinn ég hafði verið að flýta mér þegar ég pantaði, og pantaði óvart flug frá Reykjavík til Kaupmannahafnar. Þurfti því að breyta miðanum, og borga ansi mikið á milli. Plús að ég þurfti að eyða 8 tímum á flugvellinum. Virkilega hata þennan flugvöll. Lendi alltaf í að hanga þar alltof lengi.
Annars er hálffurðulegt að vera komin heim. Er núna hjá Ellu systur á Akranesi, en kem í bæinn í kvöld til að sjá tónleikana. Byrja svo að vinna á þriðjudaginn.
Annars er það eina sem ég hugsa um í augnablikinu eru hjól. Langar alveg ótrúlega að hafa hjól í sumar, þannig að ef einhver er með hjól í geymslunni sem er aldrei notað og vill leyfa mér að viðra, þá endilega hafið samband. Eða ef einhver getur bent mér á leiðir til að fá ókeypis eða mjög ódýr hjól. Þarf ekki að vera neitt fínt, bara þannig að það virki.

Tuesday, June 17, 2008

freeee like a bird!

hó hó og jibbí jeiiiii....gleðilega hátíð góðir íslendingar! Ég fagnaði deginum með pönnukökum í morgunmat. Þetta er líka fyrsti "sumarfrídagurinn" minn, þannig að ég hef ástæður til að fagna. Pólskunáms helvítið loksins búið og bara útskriftin á morgun. Í tilefni dagsins er hellidemba. Hvað annað?
Því miður er ekki allt gott í dag, því að ein besta vinkona mín, Miria, er að fara heim til Bandaríkjanna í dag. Kannski kemur hún aftur í haust, fer eftir því hvort hún komist inn í Jagiellonski eða ekki. Hún verður bara að koma! Erum með plön að finna ævintýralega íbúð saman í Kazimierz og hafa hengirúm í eldhúsinu. Of góð plön til að brjóta!
En já, annars líður að því að ég komi heim, 26.júní, bara 9 dagar. Vá, en skrítið. Hlakka alveg dáldið til, en að sumu leiti kvíður mig fyrir líka. Líður svo vel hérna í Kraká í augnablikinu. Verður líka skrítið að hitta ekki vini mína hérna í 3 mánuði. Maður verður svo náinn vinum sínum, þegar maður býr í útlöndum, þetta er eins og fjölskylda manns og maður hittir fólk svo miklu oftar. Ég hitti ekki vini mína á Íslandi á hverjum degi. En já, ætla að fara og hefja þennan dag, bæbæ

Monday, June 02, 2008

saga af dúfu

Stian vinur minn og nágranni er held ég ein besta manneskja sem ég þekki. Um daginn þegar við vorum að labba út úr húsinu, sýndi hann mér forljótan dúfuunga sem lá í portinu hjá okkur. Það vantaði á hann eitt auga og það leit út fyrir að hann gæti dáið á næstu mínútu. Afskaplega sorglegt.
Næsta dag sá ég að unginn var horfinn. "Æi, það hefur einhver drepið hann", hugsaði ég með mér, enda það kannski fyrir bestu fyrir vesalinginn.
En nei, þegar ég minnist á það við Stian, þá komst ég að því að þegar hann hafði komið drukkin heim um kvöldið, þá hafði hann fundið svo mikið til með dúfuræflinum, að hann tók hann og setti í baðkarið sitt og reyndi að gefa honum að borða en unginn vildi ekki borða neitt.
Þá opnar Stian eldhúsgluggann sinn, þar sem var dúfumamma með eitt egg. Þegar Stian opnaði, flaug hún í burtu og hann skipti á egginu og ungaræflinum. Þess má geta að unginn var ekkert rosalega lítill, eiginlega hálfgerður unglingur. En allavega, dúfur eru ekki klárustu verur í heiminum, og þegar dúfumamman kemur aftur, þá heldur hún að eggið hafi klakkst út og nú er hún búin að ættleiða ungann og hann er allur að braggast. Ótrúlegt! og Stian virkilega þolir ekki dúfur...

Annars er hér sól og sumar alla daga. Búin að uppgötva ótrúlega staði rétt utan við centrumið þar sem er hrein náttúra. Eyddum laugardagskvöldinu við stöðuvatn í náttúrunni og bjuggum til varðeld. Súpernæs :)

Tuesday, May 27, 2008

blogg

"Bloggaðu stelpa"! Segir Elín. En sannleikurinn er sá að ég hef ekkert að segja. Hver dagur rennur út í eitt, og það eina sem gerist er ekki eitthvað sem ég vil deila með öllum heiminum. Sumarið er komið í Kraká, já, veðrið, það er alltaf svo gaman að tala um það. Veðrið jú, það var voða gott í dag. Sól og sumar. Ég eyddi sumardeginum í góðum skugga fyrir utan Alchemiu þar sem ég skrifaði bréf til sjálfrar míns á íslensku og talaði við góða vini. Get sagt að ég sé komin með vinnu í sumar. Mun eyða sumrinu ofurhress ALLTAF hjá ÍTR í fellahverfi. Vona að þeir séu með gott legó... hmmm Eurovision, horfði ekki á það, sá þó íslenska atriðið í forkeppninni. Ferlega ömurlegt, en auðvitað hefðum við átt að vinna eins og alltaf. Nei, held ekki að það sé austurevrópskt samsæri að Rússar unnu. Held það séu bara tapsárir bjánar sem halda það. Pólskunámið-enn jafn ógeðslega leiðinlegt, en samt sem áður er ég komin með ferlega góðan hreim (samkvæmt pólverjum) og á auðveldara með að tala, þökk sé alltof miklu barrölti ;)

Sunday, May 11, 2008

Hvítasunnuhremmingar

Ég ætlaði að vera best í heimi og baka eplaköku fyrir piknikkið sem ég er að fara í með krökkunum, verð að vona að nærvera mín og nokkrar mandarínur dugi. Ástæðan: allar búðir lokaðar vegna hvítasunnu og skortur á heimilinu af eggjum og mjólk.
Þoli ekki tilgangslausa frídaga sem koma upp á sunnudegi. Verð að viðurkenna að ég hef aldrei skilið hvað Hvítasunna gengur út á, nema það að sofa út á mánudegi, eða allavega þegar ég er á Íslandi. Fór því í smá research og komst að þessu:

"Kristnir menn minnast á hvítasunnu einnig hins nýja sáttmála náðar og kærleika, þegar heilagur andi er sendur kristnum lýð."

Takið eftir, heilagi andinn er bara sendur kristnum lýð, það gustar því ekki einu sinni um mig og mandarínurnar mínar í dag.

Annars er að myndast óhugnalega stór marblettur á upphandleggnum mínum. Missti mig aðeins í dansinum í gær og dansaði á borð...
Svo týndi ég lyklunum mínum líka, gleðilega hvítasunnu!!!
web page visitor counters
Dell Coupons
eXTReMe Tracker